Tímarit Verkfræðingafélags Íslands - 01.12.1960, Síða 65
TlMARIT VFÍ 1960
félags Islands og starfaði sem ráðunautur þess til árs-
ins 1937, er Atvinnudeild Háskólans var stofnsett og haf-
rannsóknirnar fengnar Fiskideild í hendur. Varð dr.
Árni fyrsti forstöðumaður íslenzkra hafrannsókna og
vann þar mikið brautryðjendastarf, sem rannsóknirnar
hafa síðan búið að. Fyrstu árin störfuðu aðeins tveir
vísindamenn og fáeinir aðstoðarmenn á Fiskideild, en
eftir síðari heimsstyrjöldina bættust fleiri sérfræðingar
og aðstoðarmenn í hópinn. Alls eru 20 manns starfandi
við stofnunina.
Megintilgangur hagnýtra fiskirannsókna er að afla
þeirrar þekkingar, sem nauðsynleg er til skynsamlegrar
nýtingar hinna einstöku fiskstofna. Skynsamleg nýting
er sú veiði, sem hvorki tekur of mikið né of lítið úr
stofninum. Sé tekið of mikið, er um ofveiði að ræða, en
hún kemur fram í síminnkandi aflamagni, þótt sóknin
sé aukin. Á hinn bóginn hefur hófleg veiði sömu áhrif
á stofninn og grisjun skógar. Það er ekki æskilegt, að
stofninn verði of stór, því að það leiðir til svo harðrar
samkeppni um fæðuna, að dregur úr vexti einstakling-
anna.
Skynsamleg nýting fiskstofnanna byggist á þekkingu,
sem aflað er með kerfisbundnum athugunum á eðlis-
háttum stofnsins sjálfs, áhrifum umhverfisins og áhrif-
um veiðanna á hann. Hver þessara þriggja meginþátta
krefst ýtarlegra undirstöðurannsókna. Skal nú getið
þeirra helztu og nefnd nokkur dæmi um þann árangur,
sem þær hafa borið.
Umhverfisrannsóknir.
Rannsóknir á umhverfi fiskanna era aðallega fólgnar
í athugunum á hinum eðlisfræðilega og efnafræðilega
ástandi sjávarins, þ. e. sjávarstraumum, hitadreifingu,
seltumagni, næringarsöltum, uppleystum lofttegundum
o. fl. Sjálfstæðar íslenzkar sjórannsóknir hófust undir
stjórn Fiskideildar árið 1947. Síðan hafa þær verið
auknar ár frá ári, en mest áherzla hefur þó verið lögð
á athuganir á síldarsvæðinu norðanlands. Hafa slíkar
athuganir komið að miklum notum við síldarleit því að
reynslan hefur sýnt, að þéttustu torfurnar finnast jafn-
an á blöndunarsvæðunum, á mótum hlýju og köldu
straumanna. Á síðari árum hafa rannsóknirnar náð til
staða, sem lítið eða ekkert hafa verið kannaðir áður,
svo sem hafsvæðið milli Islands, Grænlands og Jan
Mayen. Hafa þær rannsóknir leitt í ljós, að straum-
kerfið á úthafssvæðinu norðan og norðaustan Islands
er með talsvert öðrum hætti en gert er ráð fyrir á eldri
straumkortum. Þessi þekking er mikils virði til að skýra
sveiflur í ástandi sjávarins á síldveiðisvæðinu. Rann-
sóknir á næringarsöltum hafa verið efldar á undanförn-
um árum og þannig fengizt ýmsar upplýsingar um
lífsskilyrði sjávargróðursins.
Svifrannsóknir.
Á undanförnum árum hefur verið safnað miklum
gögnum um útbreiðslu dýrasvifs, bæði fiskseiða og rauð-
átu. Fiskur í göngu er mjög háður svifinu, ekki sízt
síldin, og undir átumagninu eru veiðarnar komnar að
verulegu leyti. Á síðari árum hefur verið lögð rík á-
herzla á rannsóknir á hrygningu rauðátunnar, því að
af slíkri vitneskju má draga ályktanir um fæðuskilyrði
síldarinnar nokkrum vikum síðar. 1 rannsóknaleiðöngr-
um Fiskideildar er því unnið úr átusýnishornunum jafn-
óðum og þeim er safnað. Þá hefur sérstökum átusöfn-
urum verið komið fyrir í nokkur skip, sem sigla milli
95
íslands og Vestur-Evrópu eða Ameríku. Munu þau gögn
koma að ómetanlegu gagni síðar, þegar meira verður
vitað um áhrif umhverfisins á fiskigöngur í hafinu sunn-
an og vestan Islands.
Plöntur sjávarins gegna því mikilvæga hlutverki að
umbreyta ólífrænum efnum í lífræn efnasambönd. Þessi
starfsemi er mjög breytileg eftir hafsvæðum og háð
birtu, næringarskilyrðum o. fl. Fyrir nokkrum árum var
fundin fljótvirk aðferð til þess að mæla plöntufram-
leiðsluna, og fá þar með mælikvarða á framleiðsluget-
una hér og þar I hafinu. Síðan á árinu 1957 hefur þessi
aðferð verið beitt til þess að kanna plöntuframleiðsluna
á islenzkum hafsvæðum. Hér er að sjálfsögðu urn að
ræða mjög mikilsverðar rannsóknir, því að plöntusvifið
er undirstaða alls dýralífs í sjónum.
Rannsóknir á eðlisháttum fiskstofnanna.
Meðal aðalviðfangsefna islenzkrar fiskifræði eru at-
huganir á styrkleik hinna einstöku árganga, athuganir
á dánartölu stofnsins, merkingar, vaxtarmælingar og
kynstofnagreiningar.
Aldursgreiningar hafa sýnt, að missterkir árgangar
hjá þorski, síld, upsa, ýsu og fleiri fiskum ráða mjög
miklu um af labrögð. Sem dæmi má nefna, að árgangurinn
1922 í þorskstofninum gaf 705 þúsund tonn af þorski á
aldrinum 8—13 ára, en árgangurinn 1927 aðeins 18
þúsund tonn á sama aldursskeiði. Rannsóknir á stofn-
styrkleikanum, ásamt kynþroskanum og dánartölunr.i,
hafa gert mögulegt að segja fyrir um sveiflur í stærð
þorskstofnsins og árgangaskipun frá einu ári til annars.
Að sjálfsögðu eru slíkar spár um væntanleg aflabrögð
mjög mikilsverðar í þjóðarbúskap okkar.
Umfangsmiklar rannsóknir hafa verið gerðar á hrygn-
ingarstöðum síldarinnar hér við land og byrjaðar hafa
verið athuganir á sveiflum í hrygningarmagni, þ. e.
fjölda síldarseiða frá einu ári til annars. Fylgzt er ná-
kvæmlega með aldurssamsetningu Norðurlandssíldarinn-
ar meðan á vertíð stendur. Þá hefur tekizt að finna að-
ferðir til þess að gera aðgreiningu á sumar- og vorgots-
síld auðveldari og öruggari. Er nú hægt í smáatriðum
að bera saman árgangastyrkleikann í norðlenzka og
sunnlenzka síldarstofninum.
Á undanförnum árum hafa verið gerðar merkingar á
helztu nytjafiskum okkar og hafa þær stóraukið þekk-
ingu okkar á göngum þeirra. Má hér einkum nefna
síldarmerkingarnar, en á því sviði erum við Islendingar
forvígismenn meðal Evrópuþjóða. Merkingarnar hafa
sýnt, að samhengi er milli Norðurlandssíldarinnar og
norsku síldarinnar. Auk þessa hafa merkingar verið
framkvæmdar sunnanlands og austan síðustu árin, og er
árangurinn að byrja að koma fram nú. En fullur skiln-
ingur á sambandi sunnlenzka stofnsins, norðlenzka
stofnsins og norsku síldarinnar er undirstaða að skyn-
samlegri nýtingu þessara síldarstofna.
Merkingar á þorski hafa verið framkvæmdar um langt
árabil. Hafa þær veitt miklar upplýsingar um göngurn-
ar og álag veiðanna á stofninn. Þorskmerkingarnar hafa
því reynzt haldgóð sönnunargtign í deilum um réttmæti
friðunarráðstafana okkar. Einnig hefur mikið verið
merkt af skarkola og ýsu. 1 því sambandi má t. d. nefna,
að merkingar í Faxaflóa sýndu, að bæði skarkoli og
ýsa alast upp í flóanum, en leita þaðan út er þau hafa
náð þroska. Þessar niðurstöður staðfestu því réttmæti
þeirrar ákvörðunar að loka Faxaflóa.