Læknablaðið

Volume

Læknablaðið - 15.10.1995, Page 19

Læknablaðið - 15.10.1995, Page 19
LÆKNABLAÐIÐ 1995; 81 713 manna til lífs, frelsis og eigna (sem þeir hafa aflað með sanngjörnum viðskiptum eða þegið að gjöf/í arf) sé virt skilyrðislaust. Lögð er áhersla á að hér sé ekki um venjulega skipta- kenningu að ræða (um réttláta skiptingu lífs- gæða), enda leiði slík kenning jafnan á endan- um til augljóss ranglætis (23), heldur sögulega tilkallskenningu, um það hvernig fólki hafi verið leyfilegt að slá eign sinni á hluti í upphafi og hvernig þeir færist síðan milli manna eftir eðlilegri samskipta- eða markaðskeðju. John Locke, faðir þessarar frjálshyggju, taldi Guð almáttugan hafa gefið okkur jörðina til sam- eignar en gæði hennar gætu ekki orðið einstök- um mönnum að gagni nema einhver leið væri til að ná eignarhaldi á þeim. Það geri menn svo, á réttlátan hátt, með því að „blanda“ það sem þeir færa úr skauti náttúrunnar með vinnu sinni, svo fremi 1) að þeir skilji eftir nóg af jafngóðum hlutum í sameign handa öðrum og 2) taki ekki meira en þeir geta notað sjálfir áður en það skemmist (24). Frægasti frjáls- hyggjuheimspekingur síðari ára, Robert Nozick, bætti því hins vegar við að þessir tveir fyrirvarar Locke væru óþarfir svo framarlega sem menn slægju eign sinni á hluti án þess að ganga á rétt annarra, það er að segja aðrir stæðu ekki lakar að vígi eftir eignartökuna en áður (25). Þegar eign hefur skapast á réttlátan (sögulegan) hátt með þessu móti er það helbert ranglæti að svipta fólk henni, til dæmis með skattheimtu — nema þá skattheimtu sem ein- ungis stendur undir lágríki; ríkisvaldi sem held- ur uppi lögum og reglu en sinnir ekki öðrum verkum, síst af öllu tekjujöfnun. Að liðsinna fátækum og öðru undirmálsfólki er ekki rétt- lætis- heldur gustukaverk sem margir munu vissulega vinna af fúsum og frjálsum vilja en ranglátt er að knýja fólk til með valdboði, enda raski slíkt lögmálum hins frjálsa markaðar. Frjálshyggjumenn leggja því til c) markaðs- kvarða á forgangsröðun í heilbrigðismálum, sem og öðrum málaflokkum. Frjálslyndisstefnan (liberalism) þiggur ýmis- legt að láni bæði frá jafnaðarstefnunni og frjálshyggjunni. Frjálslyndissinnar eru sam- mála hinni fyrri um að ýmiss konar ójöfnuður sé óréttlátur, einkum sá sem stafar af ólíku slembiláni okkar í happdrætti náttúrunnar (við hvaða aðstæður, heilsufarslegar, félagslegar, menningarlegar, við fæðumst og svo framveg- is). Þeir eru aftur sammála hinni síðari um að mikilsvert sé að gefa jafningjum kost á þátt- töku í heilbrigðu kapphlaupi um lífsgæðin, en grípa ekki jafnan inn í og eyða því forskoti sent þar myndast. Réttlætishugmynd frjálslyndis- stefnunnar er þannig sú að einstaklingar hafi sem jafnastan rétt til og kost á að fylgja lífs- stefnu sinni, hver sem hún kann að vera. Mark- miðið er „sanngjörn jöfnun lífskosta“ (26); op- inber afskipti skuli stuðla að því að gera borg- urunum jafnhátt undir höfði, til dæmis með mennta- og heilbrigðiskerfi, þannig að sem flestir eigi raunhæfa möguleika á að þreyta lífshlaupið, hversu fótfráir sem þeir reynast svo á endanum. Eitt frægasta afbrigði frjálslyndis- stefnu á síðari árum er réttlætiskenning John Rawls. Samkvæmt henni tryggjum við réttláta skipan mála í hverju tilviki með því að gera okkur í hugarlund hvernig fólk „undir fávísis- feldi“ (það er fólk sem vissi að það kæmi til með að búa í viðkomandi samfélagi en ekki hver staða þess þar yrði) vildi haga málum. Og eitt af því sem við yrðum sammála um undir fávísisfeldinum er, að dómi Rawls, að eyða öllum ójöfnuði frumgæða lífsins nema því aðeins að slíkur ójöfnuður sé líka þeim til hags- bóta sem verst eru settir (27). Frjálslyndissinn- ar eru mislit hjörð, þó að grundvallarsýnin sé hin sama, enda fjölhyggjumenn (plúralistar) um gæði; engin lífsstefna sé fyrirfram betri en önnur heldur gefum við þeim gildi með vali okkar (28). Af frjálslyndisstefnunni má því leiða margvíslega mælikvarða á forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu og af þeim mun ég síðar fjalla um d) hendingarkvarða, e) kosninga- kvarða, f) gœðaárakvarða og g) lífskosta- kvarða. Síðasta réttlætiskenningin sem er málþarfa hér er nytjastefna (utilitarianism). Hún sker sig úr hópi hinna sem kynntar hafa verið með því að afneita því að réttlætið sé frumgildi siðlegr- ar breytni. Réttlæti, sem falist geti í öllum áhersluþáttunum sem þegar hafa verið nefnd- ir, þar á meðal verðskuldun og óskertum eign- arrétti, sé að vísu geysimikilvægt en enn meira máli skipti þó að ákvörðun sé rétt (það er auki heildarhamingju heimsins (29)) en réttlát. Það teljist til dæmis tæpast réttlátt að taka hluti ófrjálsri hendi en slíkt geti þó stundum verið nauðsynlegt þegar í harðbakkann slær, til dæmis þegar sá kostur er einn á að bjarga lífi manns að stela handa honum mat. Nytja- stefnumenn leggja til h) nytjakvarða til lausnar hverjum skiptavanda, meðal annars í heil- brigðismálum.

x

Læknablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.