Árbók skálda - 01.12.1956, Side 44
42
Mér fannst þessi gamli skrækróma maður satt að segja hlálegur, ef ekki
beinlínis aumkunarverður; og nú bjóst ég við, að mannfjöldinn myndi hlæja
í kór. En þar brást mér spádómsgáfan. Skemmst er frá að segja, að þeir sem
næstir mér stóðu, þeirra á meðal verkamaðurinn í samfestingnum, veittust
nú allir að mér í senn, gripu mig höndum, kórsungu syndir mínar við þjóð-
félagið, alvöruleysi mitt, heimsku mína og skilningsleysi gagnvart öldinni,
og sekt mína sem ég hefði ekki þorað að mótmæla. Og þeir lyftu mér upp,
er fremstir stóðu. Ég var nauðugur borinn á háhesti eins og sigurhetja. En
það var ekki farið með mig sem sigurvegara að öðru leyti. Múgurinn vék
iil hliðar, svo menn kæmust með mig í gegn, þangað sem ég átti að fara. —
Um miðja nótt, nánar tiltekið skömmu eftir miðnætti, var ég dreginn fyrir
lög og dóm. Aldrei áður í sögu þessa bæjarfélags hafði réttur verið settur
um hánótt. Nú lá mikið við. Ég var leiddur fyrir aldurhnigna menn í dökk-
um kuflum og með silfurgráar hárkollur. Til beggja handa sátu virðulegir
borgarar; sumir höfðu þegar letrað nafn sitt stórum stöfum í sögu mann-
kynsins. Það var kviðdómurinn. En engan sá ég lengur úr mergð þeirra, sem
staðið höfðu á torginu. Þeim hafði ekki verið hleypt inn. Þeir höfðu afhent
mig húsráðendum, síðan horfið á brott og farið heim að sofa.
Það er nokkuð kindugt að sjá yður hér, sagði dómarinn og glotti niður í
púltið.
Já, þetta er allt byggt á misskilningi, sagði ég. Eiginlega skil ég ekki,
hvernig þetta hefur farið svona.
Nei, það er ekki von, sagði hann og hélt áfram að glotta.
Þessir menn sem komu með mig hingað, þeir eru í rauninni vinir mínir og
samherjar, sagði ég. Þeir meina ekkert með þessu. Þeir —
Þeir hafa samt komið með kæru á yður, þessir — vinir yðar, sagði hann
og leit nú á mig í fyrsta sinn; glottið líkt sigurbrosi. Þeir segja, að þóir
misnotið aðstöðu yðar til að spotta Karl Marx.
Niðurbældur hlátur kviðdómenda; enginn kórhlátur meir.
Æjá, sagði ég. Grín hlýtur að vera meinlaust, einkum lélegt grín. Marx-
isminn stendur undir sínu, hvað sem ég kann að segja.
Þér teljið yður semsagt marxista? spurði dómarinn.
Já, svaraði ég.
Dómarinn þagði um stund, leit nú aftur niður í borðplötuna glottandi, fitl-
aði við skjöl og var hinn rólegasti. Svo sagði hann: Það vill nú svo til, að
það hefur ekki enn verið gerð bylting í þessu landi. Þér verðið því aldrei strangt
dæmdur fyrir að hafa spaugað með Marx karlinn. Öllu heldur: ég sýkna
yður af þeirri kæru. En-i, vinir yðar hafa nú einusinni komið með yður hing-
að, og mér finnst óþarfi að menn fari fýluför um hánótt, hvort heldur það
eruð þér eða aðrir. Ég leyfi mér því að ákæra yður sjálfur, hérmeð, af hálfu
Hins Opinbera, þess valds sem enn er ráðandi í frjálsu þjóðfélagi.
Fyrir hvað? spurði ég.
Ja, við getum sagt: fyrir það, sem þér hafið þegar játað: að þér eruð bylt-
ingarsinni.
Ósamstilltur hlátur á kviðdómendabekkjunum.