Árbók skálda - 01.12.1956, Síða 78
76
En að morgni reistu úr rekkju og gekkst keikur fyrir auglit húseigandans,
náttúrulaus maður beilagur.
Þau undur gerðust um jólin, að tvö börn komu að austan yfir fjall og gistu
höfuðborgina. Þau komu seint um kvöld og var smyglað inn í litla íbúð í
húsi óbyrjunnar. Og dýrðlegur fagnaður upphófst og var fólginn í því að
horfa þögul á sofandi börn.
Nokkur dægur liðu í vímu, en þá kvað við hlátur barns. Húseigandinn
kom og heimtaði skýringu og talaði um rofinn samning, en afsökun þín var
að engu höfð. Hjón með börn í eftirdragi, fólk með almennar hvatir, — hvílík
firra. Annað hvort út, eða burt með börnin.
Þú leizt á konu þína og stofan var björt og hlý og vistleg. Samt sagði hún:
— Við verðum að fara.
— Hvert? spurðir þú snöggt.
— Við verðum að fá okkur annað húsnæði. Við getum farið austur til pabba
og mömmu á meðan.
En þú varst harður sem tinna. Þú varst orðinn maður hinnar köldu skyn-
semi. Þú sagðir:
— Það er varla rúm fyrir börnin fyrir austan, hvað þá heldur okkur í ofan-
álag. Það græðir enginn á því að við förum að flytja til gömlu hjónanna.
Það er víst nóg að biðja þau fyrir drengina. Svo getum við séð til í vor.
Og þú bjóst böm þín í kuldann og labbair með þau út í sortann og komst
þeim í bíl, sem fer yfir fjall. Þau sátu við hlið þér eins og brúður, dúðuð í
treflum, og strókur stóð úr vitum þeirra, hélugrár.
Þú varst að bera börn þín út.
Hver var að kalla?
Þú vaknaðir að morgni og það var myrkur úti og regnið streymdi niður
og það var hrollur í þér, því að klukkan var aðeins sex. Einhversstaðar langt
í burtu heyrðirðu langdreginn, ráman són, og þú læddist að glugganum og
sviptir tjaldinu frá, en hvað var það sem þú sást? Þú þrýstir fölu andliti að
rakri rúðu og starðir út í geigvænlegt myrkrið, þar sem svartir fuglar svifu
fram og aftur og blökuðu blóðtypptum vængjum. Þú hvarfst frá glugganum
og stuna brauzt yfir varir þínar, og hvenær skyldi nú daga eftir þessa löngu,
löngu miðsvetrarnótt.
Það seig á þig mók þar til morgunskíman litaði súðina kuldagráa. Þá
reistu á fætur og leizt út á nýjan leik, og einmana sálir ráfuðu í bæinn, því
götumar vaka þó húsin sofi. Handan vegarins stóðu víðitré, sem teygðu
granna arma í loft upp og veifuðu til þín, og þú veifaðir á móti. Birkikrækla
lamdi mjóum fingrum gráan stein. Gamall maður haltraði upp brekkuna og
stúlka tifaði á stöðul, en hvergi sást barn á stjái, hvergi ungbarn á vappi.
Hvenær skyldi ég næst sjá börn mín? Þú varpaðir spurningunni út í svarr-
bláan kólgugeim og bjóst ekki við svari, því að rismálastundin er hljóð og
dauð, en þá kvað við org í sortanum, og svartur djöfull hrafni líkur stefndi
með ofsahraða beint á andlit þér og æpti hásum rómi hreimsfræg orð: