Uppeldi og menntun - 01.01.2014, Blaðsíða 9
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 23(1) 2014 9
Halla JónsdóttiR
Menntavísindasviði Háskóla íslands
Hverjir fara í kennaranám og hvers vegna?
Viðhorf grunnskólakennaranema og
framhaldsskólanema
Greinin fjallar um norræna rannsókn á viðhorfum grunnskólakennaranema og nem-
enda á síðasta ári í framhaldsskóla til kennarastarfsins. Fram kom í rannsókninni að þorri
íslensku kennaranemanna, sem þátt tók, var konur með íslensku sem móðurmál. Kennara-
nemarnir völdu sér ekki starfsvettvang út frá stöðutákni og launum heldur gáfu þeir upp
persónulegar ástæður fyrir vali sínu. Þeir töldu kennarastarfið mjög mikilvægt fyrir sam-
félagið, það væri erfitt en í því fælist mikil ögrun, það væri fjölbreytt og gæfi möguleika á
persónulegum þroska. Framhaldsskólanemarnir í rannsókninni töldu að þótt kennara-
starfið væri mikilvægt starf væri það svo illa launað að það væri ekki freistandi að læra til
kennara. Ungt fólk reyndist jákvæðast gagnvart kennarastarfinu á Íslandi og í Finnlandi.
Efnisorð: Kennaramenntun, norræn kennaramenntun, viðhorf til kennarastarfsins
inn gang Ur
Kennarar gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu á hverjum tíma og eru áhrifavald-
ar í lífi nemenda sinna. Nám og menntun barna og ungmenna hefur gildi fyrir þau
sjálf en ekki síður fyrir samfélagið og þróun þess. Því hlýtur að vera áhugavert að
skoða hverjir fara í kennaranám og hvers vegna. Í fjölbreytilegu samfélagi 21. aldar
hlýtur margbreytileiki kennarastéttarinnar að teljast eftirsóknarverður svo að opna
megi leiðir ungs fólks að menningarlegum skilningi. Menntun kennara á hverjum
tíma ætti að vera metnaðarmál og keppikefli að vel sé að málum staðið (Dahlgren,
Gustafsson, Mellgren og Olsson, 1999; Darling-Hammond, 2000; Lortie,1975). Þetta á
ekki síst við á Norðurlöndum sem líta á sig sem velferðarsamfélög þar sem menntun
skipar veigamikinn sess.
Uppeldi og menntun
23. árgangur 1. hefti 2014