Uppeldi og menntun - 01.01.2014, Blaðsíða 85
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 23(1) 2014 85
koLBrún Þ. PáLsDÓTTir
starfshópur sem leiðir slíka vinnu. Þann lærdóm má meðal annars draga af sögu leik-
skólans, sem í dag er skilgreindur sem fyrsta skólastigið, en áður var fyrst og fremst
litið á hann sem dagvistun eða gæslu (Jón Torfi Jónasson, 2006).
Hugum að hlutverki ólíkra faghópa. Hlutverk umsjónarkennara er nokkuð skýrt
samkvæmt íslenskum lögum og felst meðal annars í því að hann fylgist „náið með
námi nemenda sinna og þroska, líðan og almennri velferð, leiðbeinir þeim í námi og
starfi, aðstoðar og ráðleggur þeim um persónuleg mál …“ (Lög um grunnskóla, nr.
91/2008, 13. gr.). Hins vegar er hlutverk frístundaleiðbeinenda í skólum hvergi skil-
greint, en þó er kveðið skýrt á um að grunnskólum beri að bjóða upp á félags- og
tómstundastarf (Lög um grunnskóla, nr. 91/2008, 33. gr.). Í Reykjavík er gerð krafa um
háskólamenntun verkefnastjórnenda og gerðar kröfur um menntun og/eða reynslu
almennra starfsmanna. Viðtöl við verkefnastjóra frístundaheimila og frístundaleið-
beinendur í Reykjavík sýndu að starfsfólk lagði mikla áherslu á að efla félagslegan
þroska barna, og að skapa börnum öruggt og skapandi umhverfi til leiks og hópa-
starfs:
Þetta er bara heilmikið uppeldi í rauninni ... að kenna þeim bara rétt og rangt og að
leika saman ... þetta félagslega ... vera góðir vinir og taka tillit en samt að njóta sín
sem einstaklingur ... Við höfum bara markmiðið hérna að þeim líði vel og þau hafi
gaman að því að vera hérna og finni til öryggis. (úr viðtali við verkefnastjóra frí-
stundaheimilis, sjá Kolbrúnu Þ. Pálsdóttur, 2012b.)
Áhersla var lögð á að börnin hefðu val um viðfangsefni á frístundaheimilinu, og bæði
væri boðið upp á frjálsan leik og hópastarf undir leiðsögn starfsfólks:
Þetta er þeirra frístund og það er mikilvægt að þau fái að upplifa ákveðið frelsi og
að þau hafi val um hvað þau geti gert en samt að þau séu ekki bara að gera allt sem
þau vilja. Þau þurfa líka að hafa smá ramma og aga ... svo að þau verði ekki tætt eftir
daginn. Þá er þetta frístund fyrir þau en samt eru þau líka að læra samskipti. (úr
viðtali við frístundaleiðbeinanda, sjá Kolbrúnu Þ. Pálsdóttur, 2012b.)
Hlutverk frístundaleiðbeinenda geta orðið óljós innan skólastarfsins þar sem miðað
er við formlegt námsumhverfi. Ackesjö (2011) hefur sýnt fram á að börn á sænsk-
um frístundaheimilum hafa óljósar hugmyndir um hlutverk frístundaleiðbeinenda í
skólastarfinu, en hafa á hinn bóginn mun skýrari mynd af hlutverki kennarans. Miklu
skiptir að sveitarfélög ráði inn fagmenntaða einstaklinga til að starfa við frístunda-
heimilin. Við Háskóla Íslands er boðið upp á nám í tómstunda- og félagsmálafræði
þar sem áhersla er lögð á að búa einstaklinga undir störf á sviði frítíma og óformlegs
náms (sjá Jakob Frímann Þorsteinsson, í þessu hefti). Það er því trú mín að á næstu
árum muni fjölga fagmenntuðu starfsfólki við störf á frístundaheimilum og í skólum,
fagfólki sem búi yfir þekkingu til að nýta kosti óformlegra námsleiða til að efla alhliða
þroska barna og stuðla að velferð þeirra innan og utan skóla.