Uppeldi og menntun - 01.01.2014, Blaðsíða 39
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 23(1) 2014 39
Hanna ragnarsDÓTTir og HiLDUr BLönDaL
Í máli þátttakenda kom enn fremur skýrt fram að þáttunum þremur úr líkani Gurin
o.fl. (2002) eru gerð góð skil í náminu þar sem nemendahópurinn er fjölbreyttur og
skipulag náms með þeim hætti að raddir nemenda fá að heyrast. Kennsluaðferðir og
námsmat er afar fjölbreytt og nemendum eru skapaðar aðstæður til lýðræðislegrar
þátttöku.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna fram á mikilvægi þess að virkja nemendur og
ekki síst konur af erlendum uppruna til þátttöku í námi og jafnframt að tryggja þeim
aðgengi að námsleiðum sem geta eflt þær í lífi og starfi. Ljóst er af niðurstöðum rann-
sóknarinnar að konur af erlendum uppruna á Íslandi hafa ekki allar tækifæri til að
stunda nám á íslensku og því er mikilvægt að nám á ensku sé valkostur. Einnig er
mikilvægt að í öllu námi sé hugað að ólíkum uppruna, reynslu og þekkingu nemenda
og byggt á því í kennslu (Gay, 2000; Nieto, 2010). Slíkar áherslur eru líklegar til vald-
eflingar og til að styrkja sjálfsmynd nemenda eins og dæmin úr viðtölunum hér að
ofan hafa sýnt. Þátttakendur töluðu enn fremur um mikilvægi þess að láta gott af sér
leiða til samfélagsins og sumar lýstu mjög mótuðum hugmyndum um hvernig þær
hygðust gera það, t.d. með því að bjóða stuðning við móðurmál barna af erlendum
uppruna.
Helstu niðurstöður þessarar rannsóknar renna stoðum undir þá skoðun og reynslu
höfunda að sá hugmyndafræðilegi grunnur sem námið byggir á skili sér í reynd inn
í námið og alla þætti þess, hvort sem um er að ræða kennsluaðferðir, námsmat eða
virka þátttöku nemenda. Samkvæmt niðurstöðunum eflir námið auk þess nemendur
þannig að þeir öðlast meiri trú á eigin getu og vilja til að láta gott af sér leiða. Jafnframt
er ljóst að huga þarf betur að nánari samskiptum og samvinnu nemanda í alþjóðlega
náminu við aðra nemendur á sviðinu til að koma í veg fyrir einangrun.
Á Íslandi verða nemendahópar á háskólastigi sem og á öðrum skólastigum sífellt
fjölbreyttari (Hagstofa Íslands, 2012) og er því brýn þörf á að endurskoða áherslur
í námi og kennslu til að bregðast við því. Í því samhengi má líta til reynslu af al-
þjóðlegu námi í öðrum löndum (Carroll og Ryan, 2005; Gundara, 2000). Jafnframt er
mikilvægt að sú margvíslega reynsla og þekking sem býr hjá fólki af ólíkum uppruna
sé nýtt samfélaginu og ekki síst menntakerfinu til góðs eins og ýmsir höfundar hafa
bent á (Bartolo og Smyth, 2009; Hanna Ragnarsdóttir, 2010; Hanna Ragnarsdóttir og
Hildur Blöndal, 2011; Ladson-Billings, 1994, 2001; Lumby og Coleman, 2007; Santoro,
2007; Santoro og Reid, 2006; Schmidt og Block, 2010). Alþjóðlegt nám í menntunar-
fræði getur þannig verið nokkurs konar lykill að íslensku menntakerfi fyrir fjölbreytta
nemendahópa, styrkt þá til frekari menntunar og veitt þeim ný tækifæri, eins og nem-
endur í ofangreindri rannsókn hafa staðfest. Jafnframt getur reynslan af því nýst við
þróun annarra námsleiða á háskólastigi.