Uppeldi og menntun - 01.01.2014, Blaðsíða 108
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 23(1) 2014108
sTarfsaðferðir og fagmennska í féLagsmiðsTöðvUm
þær skýringar að Danir hófu ekki víðtæka félagsmiðstöðvavæðingu fyrr en um og eft-
ir árið 1942, og þá sem mikilvægan lið í því að vernda æskuna gegn fylgifiskum her-
setu og stríðsins. Mörg dönsk ungmenni voru virk í andspyrnuhreyfingunni; félags-
miðstöðvar voru leið Dana til þess að vinna á móti því gildishruni sem óhjákvæmilega
fylgir stríðsátökum, óháð því hvaða fylkingu barist er fyrir (Lippert, 2004). Danska
líkanið varð þó fyrirmynd Íslendinga 10–12 árum síðar. Það fólst í því að reisa fleiri en
smærri einingar í einstökum hverfum borgarinnar í stað stórrar miðlægrar æskulýðs-
hallar eins og hugur Ágústs Á. Sigurðssonar og fleiri stóð til (Jónas B. Jónsson, 1954).
Þar var ekki fyrr en 15 árum eftir að fyrstu hvatningarorð komu fram að fyrsta
félagsmiðstöðin hér á landi hóf starfsemi. Saga félagsmiðstöðva í Reykjavík 1942–1992
fjallar ítarlega um þessa atburðarás (Árni Guðmundsson, 2007). Meginskýringin á því
hversu erfitt reyndist að koma þessum hugmyndum í framkvæmd var skortur á fjár-
magni og að önnur verkefni í samfélaginu voru talin mikilvægari.
Ekki er hægt að halda því fram að ástæður þess að ekki tókst að koma á fót starf-
semi fyrr en árið 1957 hafi verið skortur á faglegri þekkingu hérlendis. Skýrsla Ágústs
sýnir svo ekki verður um villst að fagleg þekking sem byggð var á framsæknustu hug-
myndum um starfsemi félagsmiðstöðva var fyrir hendi hérlendis 15–20 árum áður
en fjármagn fékkst til starfseminnar. Verkefni voru ærin, rödd æskunnar ekki sterk
og þrátt fyrir kröftuga talsmenn gekk hægt að koma málinu á dagskrá. Það var ekki
fyrr en í algert óefni stefndi um miðjan sjötta áratug síðustu aldar að borgaryfirvöld
brugðust við og stofnuðu Æskulýðsráð Reykjavíkur í nokkrum flýti í desember 1956
(Árni Guðmundsson, 2007).
Fyrstu starfsmenn Æskulýðsráðs Reykjavíkur höfðu nokkuð ólíkan bakgrunn. Bragi
Friðriksson, fyrsti framkvæmdastjóri ráðsins, var prestur. Bragi hafði nokkra reynslu
af safnaðarstarfi, en hann hafði þjónað vestanhafs á slóðum Vestur-Íslendinga og þar
kynnst æskulýðsstarfi ýmissa safnaða. Haukur Sigtryggsson, fyrsti forstöðumaður
Tómstundaheimilisins, var þúsundþjalasmiður; afbragðs ljósmyndari, myndlistar-
maður og rithöfundur. Jón Pálsson tómstundaráðunautur var auk þess útvarpsmaður
og stjórnaði um árabil vinsælum tómstundaþætti barna og unglinga í Ríkisútvarpinu.
Hann var menntaður bókbandsmeistari.
Í upphafi var ákveðið með reglugerð um Æskulýðsráð Reykjavíkur að það hefði
það hlutverk að vinna að eflingu félags- og tómstundaiðju meðal æskufólks í Reykja-
vík og hafa um það samvinnu við þá aðila sem um slík mál fjölluðu og vera þeim til
aðstoðar og leiðbeiningar. Þá átti ráðið „að leitast jafnan við að ná til þeirrar æsku, sem
sökum áhugaleysis eða af öðrum orsökum, sinni ekki heilbrigðum viðfangsefnum í
tómstundum sínum“. Lögð var áhersla á að tómstundaverkefni væru um leið kynn-
ing og þjálfun í undirstöðuatriðum helstu atvinnuvega þjóðarinnar (Samþykkt fyrir
Æskulýðsráð Reykjavíkur, 20. september 1962).
Þau viðhorf sem fram komu í þessari fyrstu reglugerð urðu leiðarljós frá fyrsta
degi. Þær reglugerðarbreytingar er síðar urðu byggðust allar á meginstefjum fyrstu
reglugerðarinnar en tóku mið af þeim þjóðfélagbreytingum sem átt höfðu sér stað.
Fyrirbyggjandi starf og forvarnir í víðasta skilningi þess orðs hafa ávallt verið leiðar-
ljós í starfseminni og er svo enn þann dag í dag.