Stígandi - 01.07.1943, Side 29
STÍGANDI
HALLDÓR HALLDÓRSSON:
UM MÁLVÖNDUN
Nú á síðari árum hefir margt verið rætt og ýmislegt ritað um
málvöndun. Menn hafa ekki verið á eitt sáttir, enda engin von
til þess. Málið er flókið, og eðlilega geta ýmis sjónarmið komið
til greina. Sumir eru íhaldssamir í þessum greinum, aðrir rót-
tækir, eins og vænta mátti. Kennarar hafa yfirleitt gerzt for-
mælendur málverndar, eins og þeim sómir, en hafa fyrir þá af-
stöðu sína sætt aðkasti ýmissa rithöfunda, sem ef til vill hefir
þótt að sér sveigt og hafa jafnvel búizt við, að þeir lægju vel við
höggi. Hefir í þeim deilum margt verið óviturlega mælt, af lítilli
þekkingu á málunum og enn minni skilningi á þeim. Það er
ekki ætlun mín að kryfja þær deilur til mergjar í þessari grein.
Henni er ekki ætlað að vera ádeila. Miklu fremur hefi ég í
hyggju að ræða málið fræðilega, að svo miklu leyti sem það er
unnt. En jafnframt vænti ég þess, að greinin geti orðið til þess
að hvetja ýmsa til meiri vandvirkni um meðferð íslenzkrar
tungu.
Áður en ég ræði málvöndun sérstaklega, tel ég nauðsynlegt að
ræða nokkuð um málið almennt. Málið er félagslegt fyrirbæri,
sem aldrei hefði orðið til, ef maðurinn væri ekki félagsvera. Því
má ekki gleyma, að maðurinn er maður af tveimur sökum.
Hann er annars vegar einstaklingur, þ. e. að einhverju leyti frá-
brugðinn öllum öðrum, verður alltaf að nokkru leyti að lifa
einn, er líffræðileg heild, fullkomlega og skýrlega greind frá öll-
um öðrum lifandi verum. En hins vegar er maðurinn félagsvera,
verður að vera samvistum við aðra, beygja sig að nokkru leyti
fyrir vilja þeirra, hefir nautn af því að njóta félagsskapar þeirra
og getur aldrei náð verulegum þroska án þess að komast í kynni
við reynslu þeirra og nema af henni.
Það er þetta síðara atriði, um manninn sem félagsveru, sem
nauðsyn ber til að hafa í huga, er menn gera sér grein fyrir mál-
inu og gildi þess. Það er félags- og samvistaþörf mannsins, sem
hefir skapað málið. Það er ekki skapað af neinum einstaklingi,