Stígandi - 01.07.1943, Page 67

Stígandi - 01.07.1943, Page 67
STÍGANDI BJARNI STÓRHRÍÐ 57 spori, þegar ég kom neðan engjarnar niður af Hemingsstöðum, skálmaði fram með kvöldlygnu Hemingsvatni og stikaði heim fagurgrænt túnið. Letilegur fjárhundur heilsaði mér með góð- látlegu bofsi, en aðra ferlivist var ekki að sjá. Þetta var líka seint um kvöld, rétt um Jónsmessuleytið. Sólin rann sem rauð kringla fyrir dalsmynninu í norðri, og sterkur bjarkarilmur umlauk mig sefjandi friði. Það yrði gaman að draga fyrir í vatninu, veiða á stöng í ánni, er tóm gæfist, og gaman að starfa að slætti og þurrki á svo fögru engi og túni. En þó sýndist mér skógurinn rétt fyrir ofan bæinn dásamlegastur, seiðrænn draumaheimur undir hörkulegum brúnum hrikalegs veruleikans, hinna geig- vænlegu Bröttuhjalla. Hvernig átti mig að gruna, að þegar til kæmi, yrði maðurinn, Bjarni stórhríð, mér hrikalegri veruleiki en Bröttuhjallar, seið- rænni dularheimur en skógurinn og hugsæknara umhugsunar- efni en fyrirdráttur og stangaveiði? Bjarni var meðalmaður á hæð og grannur að sjá, en ég komst fljótt að því, að hann bjó yfir ótrúlegu þoli og þreki. Hann var nauðrakaður, sem sjaldgæft var um bændur á hans aldri, og hár- ið silfurhvítt, undarlegt með jafn ernan mann og ekki eldri, lið- lega fimmtugan. Hann var fullur í vöngum og rjóðleitur, eins og oft vill verða um þá, sem eru úti í öllum veðrum, augun blá og oft undarlega starandi og fjarhugul, en þó vöktu hendur hans mest athygli mína. Þær voru svo litlar og mjúkar og alltaf svo hreinar, að hverju sem hann gekk. „Þú hefir sannarlega læknishendur“, varð mér einu sinni að orði við hann. Mér fannst eins og honum brygði lítilsháttar, en svo svaraði hann blátt áfram með góðlátlegu brosi: „Þær áttu líka einu sinni að verða það“. Ég hafði alltaf verið forvitinn um Bjarna frá því fyrsta, að ég sá hann, en ýmiss konar sögur, sem ég hafði heyrt um hann síðar í sveitinni, höfðu aukið mjög á for- vitni mína. Hann var ekki upprunninn þar í sveit, heldur „ein- hvers staðar að vestan“, meira vissi fólk ekki. En ótrúlegustu sögur gengu um dæmafáan dugnað Bjarna við að bjarga mönn- um í illviðrum úr Bröttuhjöllum, sérstaklega í stórhríðum, þess vegna var hann kallaður stórhríð. Þetta var um laugardagskvöld síðsumars. Það hafði verið ein- muna þurrkur um daginn, og við Bjarni gengum heim frá fúlg- unum, sem bornar höfðu verið uppvíðsvegaráengjunum.Bjarni hafði unnið eins og hamhleypa allan daginn, en það sá ekki á.

x

Stígandi

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Stígandi
https://timarit.is/publication/1085

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.