Læknablaðið

Ukioqatigiit

Læknablaðið - 15.07.2010, Qupperneq 7

Læknablaðið - 15.07.2010, Qupperneq 7
RITSTJÓRNARGREIN íslensk heilbrigðisþjónusta á erfiðum tímum Steinn Jónsson steinnj@landspitali.is Höfundur er dósent í lyflækningum og lungnasjúkdómum og formaður Læknafélags Reykjavikur lcelandic health care in difficult times Steinn Jónsson, MD, is Associate Professor of Medicine and Pulmonary Diseases at Landspitali- University Hospital in Reykjavik, lceland. Heilbrigðisþjónusta á íslandi hefur verið í mjög háum gæðaflokki í alþjóðlegu samhengi. Um það vitna margvíslegar hagtölur og nægir að nefna lægsta burðarmálsdauða í heimi og hæstu ævilíkur. Kostnaður við heilbrigðisþjónustu á íslandi er þó rétt í meðallagi fyrir OECD-ríki eða um 9% af vergri landsframleiðslu.1 Á undanförnum áratugum hefur orðið mikil framþróun í heilbrigðisþjónustu hér á landi. Þar ber vafalaust hæst sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík í Landspítala-háskólasjúkrahús. Sú ráðstöfun var umdeild og erfið eins og búast mátti við. Frá faglegu sjónarmiði hefur þó orðið ótvíræður árangur af sameiningunni. Sérgreinar læknisfræðinnar hafa styrkst og þannig myndast grundvöllur fyrir aukinni sérhæfingu í þágu betri þjónustu við sjúklinga. Þá hafa skapast aukin tækifæri til kennslu og vísindastarfa og eru íslenskir læknar leiðandi í vísindasamfélagi lands- ins þegar litið er til birtra greina í alþjóðlegum ritrýndum tímaritum. Helsta vandamál Landspítala í dag er að starf- semin fer fram í tveimur húsum og sérgreinarnar eru ekki staðsettar í námunda hver við aðra. Þá er húsakostur orðinn úreltur, bæði aðstaða sjúklinga og fyrir starfsemina almennt. Þess vegna er það eitt brýnasta hagsmunamál í heilbrigðismálum á íslandi að hið nýja háskólasjúkrahús verði reist. Læknafélögin munu hér eftir sem hingað til styðja það verkefni með ráðum og dáð. Þjónusta við sjúklinga utan spítala hefur vaxið hröðum skrefum á íslandi eins og víða annars staðar. Með tilliti til kostnaðar er æskilegt að veita sem mesta þjónustu án innlagnar og að hún sé samfelld og persónuleg. Heilsugæslan gegnir enn sem fyrr mikilvægu hlutverki. Nýjar tölur um afköst og kostnað benda þó til þess að kerfis- breyting í átt til afkastahvetjandi kerfis mundi koma sér vel í heilsugæslunni. Vinna þarf að því að allir íbúar landsins hafi aðgang að heimilis- lækni. Mikilvægt er að auka sjálfstæði lækna heilsu- gæslunnar og nýta fjölbreytt rekstrarform. Virkja þyrfti rammasamning um þjónustu sjálfstætt starf- andi heimilislækna sem byggir á greiðslum fyrir unnin verk. Frá árinu 1936 hafa Læknafélag Reykjavíkur og Tryggingastofnun ríkisins (nú Sjúkratryggingar íslands) gert með sér samning um þjónustu sér- fræðilækna við sjúkratryggða. Þessi samningur hefur tryggt þegnum landsins greiðan aðgang að bestu sérfræðiþjónustu sem völ er á hér á landi. Verðlagning fyrir læknisverk í þessum samn- ingi eru meðal þess allra lægsta sem til þekkist á Vesturlöndum. Þannig má segja að heilbrigðis- yfirvöld og læknasamtökin hafi sameinast um þetta fyrirkomulag í þágu skjólstæðinganna. Samningurinn hefur tryggt jöfnuð og greitt aðgengi án tillits til efnahags sem er eitt helsta einkenni hins íslenska heilbrigðiskerfis. Því miður hefur þessi samningur oft átt undir högg að sækja og sjaldan verið metinn að verðleikum af hálfu yfirvalda. Ávallt hefur þó tekist að ná samning- um þótt oft hafi litlu munað að þetta ákjósanlega fyrirkomulag yrði sett í uppnám. Um þessar mundir gengur íslenskt þjóðfélag í gegnum fjárhagsþrengingar sem eiga rætur að rekja til glæfralegrar hegðunar stjórnenda bankakerfisins á undanförnum árum. Þá hefur skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis leitt í ljós að lög og reglur um fjármálamarkaðinn voru ófullnægjandi og að stjórnvöld höfðu ekki sinnt nauðsynlegri endurskoðun á þeim lögum í kjölfar þess að EES-samningurinn var gerður.2 Krafan um hagræðingu og lækkun ríkis- útgjalda er mikil og læknar munu ekki víkja sér undan því að taka þátt í þeim aðhaldsaðgerðum sem nauðsynlegar eru á næstu árum ef sanngirni og eðlileg hagkvæmnissjónarmið ráða för. Gott dæmi um mögulegt samstarf lækna og heil- brigðisyfirvalda að þessu leyti snýr að lækkun lyfjakostnaðar, en líklega má ná fram milljarða- sparnaði á þessu sviði. Það eru hins vegar engin haldbær rök fyrir því að heilbrigðisþjónustan eigi að taka á sig stærri hluta af samdrætti í ríkisútgjöldum en aðrir þættir, þvert á móti. Þá er einnig erfitt að ímynda sér að heilbrigðisyfirvöld vilji skera niður það sem sannanlega er hagkvæmt og vel gert. Verkefni okkar á næstu árum verður að standa vörð um íslenska heilbrigðiskerfið sem við læknar höfum að mörgu leyti haft forystu um að byggja upp og erum afar stolt af. Um þetta mikilvæga markmið munu læknar ávallt standa saman. 1. Samantekt á læknakostnaði á íslandi. Skýrsla Læknafélags íslands. www.lis.is 2. Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis 2010. www.althingi.is LÆKNAblaðið 2010/96 459

x

Læknablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.