Tímarit Máls og menningar - 01.03.1949, Blaðsíða 64
ÞÓRBERGUR ÞÓRÐARSON:
Samsærið gegn mannkyninu
Sá, sem þessar línur ritar, er af eftirtöldum ástæðum eindregið and-
vígur því, að íslendingar gerist aðiljar að svo kölluðu Atlantshafs-
bandalagi eða gefi, leigi eða selji nokkurn blett af landi sínu til her-
stöðva, herdvalar eða hergagnageymslu, undir hvaða nafni sem slíkt
athæfi kynni að verða falið á diplómatisku hundingjamáli:
1. Atlantshafsbandalagið er hernaðarbandalag, hugsað og áformað
til árásar á hinn sósíalistiska hluta heimsins. Ef íslendingar gerast þátt-
takar í þessu bandalagi, hafa þeir skipað sér í raðir hernaðarþjóða,
svikið hið margyfirlýsta hlutleysi sitt og lagt sér á herðar byrðar, sem
þeim munu reynast þungur baggi.
2. Árásareðli bandalagsins er falið fyrir þjóðunum með því að kalla
það „varnarbandalag“. En hverjum á það að verjast? Hver hefur hugs-
að sér að gera árás á þau lönd, sem að bandalaginu standa? Látið er
í veðri vaka að það séu Rússar. En dettur nokkrum heilvita manni í
hug, að Rússar fari að gera hernaðarárás á Bandaríkin, brezka heims-
veldið eða nokkurt annað land, hvar sem er á heimskringlunni?
Því trúir enginn algáður stjórnmálamaður, jafnvel enginn ótruflað-
ur stríðsæsingaböðull. En þeir látast trúa því og þeir boða það til þess
að hræða þjóðirnar til fylgis við bandalagið, herða þær í brjáluðu
Rússahatri, í því skyni að beygja þær undir umfangsmestu kúgun ver-
aldarsögunnar, æra upp í þeim skelfingu við sósíalismann og tilreiða
hugi þeirra til fylgis við árásarstyrjöld.
En þeir, sem láta telja sér trú um, að Rússar hyggi á árásarstyrjöld,
þeir botna harla lítið í eðli hins sósíalistíska þjóðskipulags og hafa lé-
lega fylgzt með stórpólitískum atburðum síðustu fjórtán ára. Sósíalist-
iskt samfélag bíður undir öllum kringumstæðum tjón af stríði, en þeir,
sem græða á styrjöldum, það eru herrarnir, sem kallaðir hafa verið
„kaupmenn dauðans“ og aðrir áþekkir auðkýfingar hinna kapítalist-