Tímarit Máls og menningar - 01.06.1960, Page 38
HERMANN PALSSON
Uppruni íslenzkrar menningar
Hið nýútkomna ritgerðasafn Barða
Guðmundssonarer mikil aufúsu-
bók öllum þeim, sem áhuga hafa á
sögu þjóðarinnar um fyrstu aldir
landsbyggðar og á sögu forfeðra
vorra, áður land væri numið.* Þótt
ritgerðir Barða um uppruna íslenzkr-
ar skáldmenntar hafi vakið mikla at-
hygli, þegar þær birtust í Helgafelli,
hefur þeim furðu lítill gaumur verið
gefinn síðan. íslenzkir fræðimenn
hafa reynzt furðu tregir til að varpa
af sér oki norskra kenninga um upp-
runa þjóðarinnar, og nægir í því efni
að minna á sögubækur þeirra Bjarnar
Þorsteinssonar og Jóns heitins Jó-
hannessonar, en þær birtust báðar,
eftir að hinar gagnmerku rannsókn-
ir Barða Guðmundssonar urðu kunn-
ar.
Sú skoðun, að íslendingar séu ein-
ungis brot af hinni norsku þjóð, fær
engan veginn staðizt. Til þess er
menning Islendinga of frábrugðin
hinni norsku. íslenzkir stjórnarhættir
urðu þegar í öndverðu allt aðrir en
þeir, sem tíðkuðust í Noregi. Hér
urðu konungar eða jarlar ekki ráð-
andi, eins og var í Noregi, og hér
tíðkaðist ekki óðalsréttur eins og þar.
Hins vegar virðist goðorðaskipanin
íslenzka aldrei hafa tíðkazt í Noregi,
en hún var eins og alkunnugt er eitt af
helztu einkennum hins íslenzka alls-
herjarríkis. Svipuðu máli gegnir um
ýmsa aðra þætti íslenzkrar menning-
* Barði Guðmundsson: Uppruni Islendinga — Safn ritgerða —. Bókaútgáfa Menningar-
sjóðs, Reykjavík 1959.
Auk ritgerðanna um uppruna skáldmenntar og forsögu Islendinga birtast bér fimm
greinar, sem hafa orðið fræðimönnum hinn ágætasti leiðarvísir um sögu þjóðarinnar á
fyrstu öldum landsbyggðar: Tímatal Ara fróða, Tímatal annála um viðburði sögualdar,
Goðorðaskipun og löggoðaættir, Goðorð forn og ný, Uppruni Landnámabókar. Þessar rit-
gerðir verða ekki ræddar hér, né heldur þrjár greinar í bókinni, sem varða sögu Skandin-
avíu. — Þess er sjálfsagt að geta, að Skúli Þórðarson sagnfræðingur ritar greinagóðan
inngang að bókinni. Það, sem helzt má finna að þessari myndarlegu bók, er tvennt: Útgef-
endum hefur láðst að semja heimildaskrá, því að stundum er örðugt að átta sig á, við
hver rit Barði hefur stuðzt, þótt hann nefni höfunda. Og í öðru lagi hefði verið æskilegt,
að skrá yfir atriðisorð og hugmyndaheiti hefði fylgt með.
180