Tímarit Máls og menningar - 01.12.1962, Síða 22
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
gleymsku, þegar fram í sótti. Kapítalisminn, sem var ungur og gróskumikill,
gaf fyrirheit um batnandi hag almennings, „gróandi þjóðlíf“, og alþýðan
lét sér lynda forustu atvinnurekenda bæði í hagrænum og andlegum efnum.
En svo skall heimskreppan á, útflutningsmarkaðir landsins hrundu, og inn-
an skamms var komið víðtækt atvinnuleysi og skortur í kjölfar þess. Þá kom
í Ijós, að einstaklingsframtakið var ekki vandanum vaxið. Talsmenn þess
kunnu engar skýringar á hinu válega þjóðfélagsfyrirbæri aðrar en helzt þá,
að kreppan væri eins og vindurinn, sem enginn vissi, hvaðan kæmi, né hvert
færi. Ekki sérlega uppbyggileg útskýring fyrir bjargarlaust fólk. Þá var og
sú meginregla einkaframtaksins talin í fullu gildi eftir sem áður, að sá at-
vinnuvegur einn ætti rétt á sér, sem rekinn væri hallalaust. Samkvæmt því
hafði atvinnurekandinn fullan siðferðilegan rétt til að hætta rekstri óarðbærra
fyrirtækja, hvað sem liði þá lífsafkomu þess fólks, sem við þau hafði starfað.
Sókn alþýðusamtakanna hélt áfram á kreppuárunum. Það var mynduð
„stjórn hinna vinnandi stétta“, en henni gekk seinlega að yfirstíga erfiðleik-
ana, og hún olli vonbrigðum. Eins og eðlilegt er við slíkar aðstæður tók að
grípa um sig vantrú á það, að ríkjandi þjóðfélagshættir væru til frambúðar.
Sá skilningur breiddist út, að alþýðunni væri ekki nóg að stofna sín stéttar-
félög og stjórnmálaflokka, hún þyrfti líka að geta aflað sér þekkingar upp á
eigin spýtur, án forsjár nokkurrar yfirstéttar, hún þyrfti að geta skapað sitt
eigið hugmyndakerfi, hún gæti ekki átt samleið með afturhaldssinnaðri og
j afnvel fasistískri atvinnurekendastétt.
Þegar hugmyndin um stofnun alþýðlegs bókmenntafélags kom fram, fékk
hún óðar ágætar undirtektir. Mál og menning var síðan stofnað, og alþýðu-
fólk flykktist í það þúsundum saman á fyrstu mánuðum og árum. Það er
skemmtilegt að lesa aftur bréf félagsmanna víðsvegar um land, sem birt voru
í Tímaritinu á þeim árum. Það kemur greinilega í ljós af þeim, að þeir líta á
Mál og menningu sem sitt félag í sama skilningi og stéttarfélag sitt eða önnur
nytsöm og nauðsynleg alþýðusamtök. Þeir líta á hið nýja félag sem ávöxt
sprottinn af samtakamætti alþýðunnar og vænta sér af því óháðrar fræðslu
og menningarauka. Milli stjómar Máls og menningar og félagsmanna skapað-
ist náið samband og hinn ákj ósanlegasti einhugur, og á skömum tíma varð
félagið að sannkallaðri menningarlegri vin í eyðimörk kreppuáranna. Og Mál
og menning hafði í för með sér ávinning fyrir íslenzka alþýðu einnig á öðrum
sviðum. Það er ekki efi á því, að sú lyfting, sá stórhugur, sem skapaðist í al-
þýðuröðum fyrir starfsemi þessa unga menningarfélags, átti sinn þátt í sigrum
launþeganna í landinu á stríðsárunum bæði á sviði kjaramála og stjórnmála.
292