Tímarit Máls og menningar - 01.12.1962, Side 29
RAUNVÍSINDI OG ÍSLENZKUR ÞJ ÓÐARBÚSKAPUR
m. Staða vísinda í íslenzku þjóðfélagi
1. Vísindastörf í lágu verði
Það kann að hljóma ósennilega á ævintýraöld tækninnar, en samt er það
svo að vísindi standa um þessar mundir ískyggilega höllum fæti í íslenzku
þjóðfélagi. Meginástæðan er sú, að vísindastörf eru lágt metin af valdhöfum
í þjóðfélaginu, og í samræmi við það eru vísindamenn svo lélega launaðir, að
þeim er velflestum nauðugur kostur að leita annarra starfa, svokallaðra
„aukastarfa“, til þess að sjá sér og sínum farborða. En vísindamaðurinn kann
ekki öðrum fremur tveimur herrum að þjóna — nema síður sé — og starfi
hann t. d. margar klukkustundir á dag við byggingu húss síns eða að verk-
efnum utan síns aðalstarfssviðs, fer naumast hjá því að hans vísindalega
vinna bíði tjón við það. Aukavinna af þessu tagi getur ennfremur orðið and-
leg raun sem hætt er við að slævi áhuga og sjálfsvirðingu vísindamannsins.
Allmargir íslenzkir vísindamenn starfa nú erlendis, vegna þess að þar njóta
þeir betri launakjara og að jafnaði fullkomnari vinnuaðstöðu að öðru leyti.
Ástæða er til þess að spyrja, hversvegna vísindastörf á íslandi eru talin
minna virði en í öllum öðrum vestrænum löndum, og þó víðar væri leitað.
Hér verður ekki reynt að brjóta þetta mál til mergjar, en þó langar mig til að
drepa á tvö atriði í þessu sambandi i næstu tveim köflum.
2. Er brýn nauðsyn að rœkja vísindastörf á fslandi?
Það er ekki óeðlilegt að hinum íslenzka borgara komi ofangreind spurning
í hug, með því að svo virðist sem hann njóti í dag ávaxta visinda og tækni í
viðlíka ríkum mæli og borgarar annarra vestrænna þjóða. Getum við ekki
sparað okkur útgjöld vegna vísindastarfa og látið stærri þjóðir einar um
að fullkomna vélar og verksmiðjur, heilsu- og læknisþjónustu á mönnum og
dýrum, o. s. frv.? Eins og fyrr var að vikið, njótum við nú — og munum
ætíð gera — ávaxta af vísinda- og tæknistarfi annarra þjóða. En jafnframt
var vakin á því athygli að fjölmörg vandamál væru svo sérstæð fyrir land
vort og þjóðarbúskap, að niðurstöður fengnar í öðrum löndum kæmu að
ónógu eða engu liði við lausn slíkra vandamála. En fjöldi íslendinga — bæði
hátt og lágt settir — mun naumast gera sér ljósa grein fyrir síðastnefnda at-
riðinu og þeir hinir sömu myndu því væntanlega svara yfirskrift þessa kafla
neitandi. Vísindastörf eru að þeirra áliti munaður sem vel er hægt að vera án,
og á þetta sjónarmið óefað nokkurn þátt í hinu lága mati þjóðfélagsins á gildi
vísinda fyrir þjóðarbúskap og þjóðmenningu.
299