Tímarit Máls og menningar - 01.12.1962, Síða 36
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
skólalóðarinnar í Reykjavík geti nægt framtíðarþörfum íslenzkra raunvísinda.
Þeir munu raunar ekki nægja fyrir framtíðarþarfir Háskólans sjálfs. Það
minnsta sem núlifandi kynslóð getur látið af mörkum til framdráttar raun-
vísindum á Islandi er að tryggja næstu kynslóðum nokkurt olnbogarúm til
framkvæmda á þessum vettvangi.
c). Þriðja atriðið sem minnast mætti á er heildarlöggjöf um rannsókna-
starfsemi á íslandi. Þetta mál hefur verið á dagskrá hjá íslenzkum stjórnar-
völdum nær óslitið tvo síðustu áratugina. Löggjöf á þessu sviði er að sjálf-
sögðu nauðsynleg, og hún er gagnleg að svo miklu leyti sem hún bætir starfs-
aðstöðu vísindamannsins og örvar starf hans. Þegar frá eru talin launalög
ríkisins, sem endurspegla hið lága mat þjóðfélagsins á gildi vísinda, má segja
að gildandi löggjöf um raunvísindi hafi á undanförnum áratugum haft frem-
ur lítil áhrif á starfsaðstöðu og þann árangur sem orðið hefur af viðleitni
raunvísinda. Þetta er raunar ekki ýkja neikvæð umsögn, og mun ráðlegt að
hafa augun hjá sér, þegar löggjöfinni verður breytt næst, að ekki færist hún
í óhagstæðara horf. Eins og nú horfir, tel ég þau atriði er minnzt var á í
framanskráðum köflum a) og b) mikilvægari en umrædda löggjöf.
V. Niðurlag
Það er jafnan útlátalítið að gagnrýna og setja fram kröfur. Má vera að ein-
hverjum þeim er leggur á sig það erfiði að lesa þetta greinarkorn verði hugs-
að á þessa leið, og því fremur sem höfundurinn er í hópi „olnbogabarna14
vísindanna, er þjóðfélagið vanrækir að hans dómi. í sambandi við viðbrögð
af þessu tagi vil ég vekja athygli á tveim eftirfarandi atriðum.
a) Fjárframlög til raunvísinda á íslandi, reiknuð á hvern íbúa eða t. d. á
hverja 1000 íbúa, er miklu minni en í nokkru öðru landi í vestanverðri Evrópu
eða í Norður-Ameríku. Vísast í þessu efni til greinargerðar er núverandi
framkvæmdastj óri Rannsóknarráðs ríkisins tók saman um þessi efni fyrir um
tveim árum. A meðan aðrar þjóðir auka jafnt og þétt fjárframlög til vísinda,
stöndum við í stað eða hopum jafnvel á hæli.
b) Það er ekki ástæða til að kenna sérstaldega í brjósti um íslenzka vísinda-
menn af fjárhagslegum ástæðum eða fyrir þá sök að þeim kunni að ganga illa
að hafa ofan af fyrir sér með því að sinna sinni sérgrein eða aðalstarfi ein-
göngu. Auk þess sem þeir hafa velflestir öllu rýmri „aukavinnu“-möguleika
en aðrir háskólakandidatar, eru þeir gjaldgeng „vara“ á alþjóðamarkaði, og
eiga þeim mun auðveldara með að fá störf erlendis, þar sem skortur á þessari
„vöru“ hefur farið ört vaxandi hin síðari ár. Hitt skal játað, að sumum þeirra
306