Tímarit Máls og menningar - 01.12.1962, Síða 45
SKÓGRÆKT — NÝR ÞÁTTUR í RÆKTUN ÍSLANDS
sé — er ljóst, að skógræktin skilar margföldum arði á við beitina, hvort sem
mönnum líkar betur eða verr.
Þannig kemur á daginn, að mikil landflæmi liggja tiltölulega illa nýtt, sem
hægt væri að stunda á mjög arðvænlega ræktun. Hún myndi færa bæði rækt-
endum sjálfum og þjóðarbúinu margfaldar tekjur á við það, sem sama land
skilar nú. Svo að ekki sé minnzt á, að enn liggur víða við eyðingu slíkra beiti-
landa, sakir ofbeitar. Margir halda, að hættan á landrýrnun og -eyðingu af
völdum ofbeitar sé liðin hjá. En samkvæmt því, sem nýjast er uppi á teningn-
um í beitarrannsóknum, fer því fjarri, að svo sé. Sannleikurinn er sá, að
ennþá er stunduð gífurleg rányrkja á beitilöndum íslands.
Störf að skógrækt
Að skógræktinni starfa fyrst og fremst tveir aðilar: Skógrœkt ríkisins og
skógrœktarfélög landsins. En margir einstaklingar leggja einnig hönd á plóg-
inn.
í lögum um skógrækt er takmark skógræktar skýrgreint þannig: Vemdun
gamalla skógarleifa og ræktun skógar.
Skógræktin á íslandi hefur þá sérstöðu, borið saman við nágrannalönd
okkar, að ekkert verður aðhafzt, nema skógræktarlandið sé friðað fvrir ágangi
búfjár. Hér þarf rammlegri — og um leið dýrari — girðingar til þess að
halda búfé í skefjum en ég hef annars staðar spurnir af. Það á einkum rót
sína að rekja til þess, hve íslenzka sauðkindin er fimari og kjarkmeiri skepna
en sauðfjárkyn nágrannalandanna. Ennfremur gildir hér á landi öfug regla
vi<5 það, sem annars staðar tíðkast: Hér þarf landeigandi að verja land sitt
fyrir fénaði annarra, en erlendis ber eigandi búfjár ábyrgð á því, að fénaður
hans gangi ekki á annarra manna lönd. Fyrir því er starfið að friðun skóg-
ræktarlanda ótrúlega mikill liður í starfsemi skógræktarinnar.
Mest áherzla hefur verið lögð á að friða lönd, gróin birkiskógi eða -kjarri.
Þar eru aðstæður á flestan hátt beztar til ræktunar: Birkið sér um, að jarð-
vegur haldist í hefð og það veitir skjól, sem ungum plöntum er dýrmætt á við-
kvæmasta aldursskeiði. — En einnig hafa verið friðuð mikil skóglaus lönd,
þar sem hafin er ræktun eða mun hefjast í náinni framtíð. Friðun sumra
stærstu þessara landa eins og Þjórsárdals, Þórsmerkur og Þingvalla flokkast
þó fremur undir náttúruvernd en skógrækt. Enda hefur skógræktin haft for-
göngu hér á landi um náttúruvemd og eini aðilinn. sem að henni vann, fram
að stofnun Náttúruverndarráðs.
Hjá Skógrækt ríkisins skipa gróðrarstöðvar mikið rúm í rekstrinum og
315