Tímarit Máls og menningar - 01.12.1962, Page 54
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
sem þær eru siðfræðilegs, trúfræðilegs, eða pólitísks eðlis. Þetta vita stjóm-
málaforingjamir, sem eru að flækjast um sveitina á sumrum með sín héraðs-
mót. Þeir hafa þá meðferðis allskonar spilverk úr borginni sem þeir vita, að
unga fólkinu þykir gaman að horfa og hlusta á. Svo læða þeir sínum pólitísku
fræðum inn í spilverkið í þeirri von að þau kunni ef til vill einhvers staðar að
falla í frjóa jörð. Þetta þyrftu prestarnir að reyna líka, þeir þyrftu að flytja
einhverskonar spilverk inn í kirkjurnar, sem ungu kynslóðinni þætti gaman
að og reyna svo að læða svolitlu guðsorði með.
Hin hjólmennta kynslóð, sem nú er sem óðast að taka við af hinni gömlu
í sveitum landsins, verður tæplega til þess kölluð að skila miklum afrekum á
sviði bókmennta eða lista. Hún hefur einnig mjög takmarkaðan áhuga á
landsmálum og veraldarpólitík. Hún gerir sér varla grein fyrir, hvað er frjáls
heimur og hvað er ekki frjáls heimur, og hún kann ekki einu sinni að hræð-
ast kommúnistahættuna. Og kristindómurinn virðist vera í nokkurri þoku
fyrir henni. Þó er hún engan veginn á móti guði eins og sumir prestar virðast
halda, en henni leiðast prédikanir af því tagi, sem og aðrar prédikanir, er hafa
á sér áróðursblæ.
En hún trúir á sitt hjól, sitt vélknúna hjól, og hún trúir því, að hún geti
gert sína sveit að jarðneskri paradís með hjálp síns vélknúna hjóls.
Og hún hefur þegar sýnt þessa trú sína í verki, næstum með fullkomnum
ólíkindum.
Hitt er svo annað mál, að okkur, sem lifum að hálfu í hinum gamla tíma,
sem næstum stóð kyrr, meðan við uxum til fullorðinsára, finnst sem hin hjól-
mennta kynslóð hafi á stundum rasað fyrir ráð fram og unnið meir af kappi
en forsjá.
Og þegar við, ellimóðir orðnir, finnum okkur vanmáttka til að snúast með
sívaxandi hraða hins vélknúna hjóls, þá segjum við kannske við sjálfa okkur,
eins og Mynster sálugi forðum:
Ond mín er þreytt, hvar má hún finna hvíld?
Við svörum okkur sjálfir og segjum:
í borginni.
En við segjum það ekki upphátt, því það gæti eins vel reynzt blekking, því
hvar er í heimi hæli tryggt?
324