Tímarit Máls og menningar - 01.12.1962, Page 69
VAR Á ÞVÍ ÞINGI SVARÐUR SKATTUR
ingar svo að gera sitt bandalag? Þorvarður Þórarinsson hefur lofað að koma
með Austfirðinga. Þar er sá maður, sem lét af hendi mannaforráð sín undir
yfirráð konungs síðastur allra höfðingja í landinu og stóð þar í gegn, meðan
kostur var á. Hann var giftur dóttur Steinvarar á Keldum og Steinvararsynir,
sem Vestfirðingar vildu fá til þings, því mágar hans. Oddaverjamir, synir
Andrésar Sæmundssonar, hafa orðið frægastir í sögunni fyrir það að reynast
Gissuri jarli óþægir ljáir í þúfu, og taldi jarl málum sínum ekki komið í gott
horf þar um Rangárþing, fyrr en hann hafði gert Þórð Andrésson höfðinu
styttri, svo sem frægt er af sögunni um síðasta Oddaverjann. Sumarið 1261
kúgaði Gissur Rangæinga til að sverja Hákoni konungi hollustueiða, en þeir
eiðar voru af engum heilindum unnir, enda fór Gissur með her á hendur þeim
sumarið 1263 og lét þá sverja á ný.
Það liggur því í augum uppi, hverra erinda Vestfirðingar hafa ætlað þeim
austanmönnum að koma á Þingvöll 1262: Vestfirðingar eru að afla sér banda-
manna til að standa gegn því, að konungs vilji nái fram að ganga á alþingi.
Önnur atriði frásagnarinnar, sem okkur koma ef til vill einkennilega fyrir
sjónir við fyrsta lestur, verða nú ljós. Sturla segir ekkert um tilgang Gissurar
með því að ríða með flokk manna austur að Laugarvatni að eiðtöku lokinni
og halda flokknum þar „um hríð“. En skýringin liggur í augum uppi: Gissuri
hafa borizt njósnir um, að von væri Rangæinga og Austfirðinga á vettvang,
og hann vill hindra, að þeir nái sambandi við Vestfirðinga, áður en Hallvarði
og Sigvarði biskupi tekst að þröngva þeim til eiða.
í frásögninni er engin skýring gefin á því, að ekkert verður úr þingreið
þeirra austanmanna. Sturla segir, að Þorvarður hafi heitið komu sinni, en
um Steinvararsonu og Andréssonu segir hann aðeins, að menn hafi verið
sendir á fund þeirra og þeir beðnir að koma með öllum sínum afla. Þeir hafa
ekki lofað för sinni, en Vestfirðingar þó gert sér vonir um, að þeir kæmu,
enda ekki fengið afsvar. Þeir eru sennilega sá hlekkurinn, sem fyrst brestur í
keðjunni, sem Vestfirðingar vildu gera. Einhugur hefur ekki náðst með þeim
um aðgerðir. Sennilega hefur það valdið nokkru, að ekki var ár umliðið,
síðan þeir voru þvingaðir til að vinna sinn hollustueið, og einhverjir þeirra
hafa þá litið á það sem fullnaðaruppgjöf og þeim ekki þótt árennilegt að
bjóða Gissuri byrginn á ný. Aðgerðaleysi þeirra dregur svo úr mági þeirra
Steinvararsona, Þorvarði Þórarinssyni, að standa við heit sitt um að koma
með Austfirðinga.
Svo skulum við ekki efa það, að mikið hefur skort á, að einhugur ríkti
milli þeirra Vestfirðinganna. Sturla hefur frásögn sína af þessum atburðum
339