Tímarit Máls og menningar - 01.12.1962, Page 73
VAR Á ÞVÍ ÞINGI SVARÐUR SKATTUR
saga sleppir ekki tökunum, en til þess að koma henni aftur að, þarf að koma
ný viðbót. Og Hallvarður er nú látinn kveðja sér hljóðs og tilkynna, að fyrir
vestan heiði séu flokkar saman dregnir og þar hafi menn „heitið að ganga
undir skatt og konungsmál og ætluðu að ríða til þings og flytja þar konungs-
mál. Og er jarl spurði þetta, átti hann tal við vini sína og ráðagerðir. En er
því tali lauk, flutti jarl konungsmál bæði við Norðlendinga og Sunnlendinga,
bað þá til góðum orðum, en kallaði fjörráð við sig, ef eigi gengju þeir undir,“
og er þar fylgt Hákonar sögu. Að svo mæltu er sagt frá særi Norðlendinga og
Sunnlendinga samkvæmt íslendinga sögu og síðan sáttum Hrafns og Gissurar.
Þá kemur Hákonar saga á ný. Gissur reið austur í Laugardal „og hélt þar
saman flokkinum um hríð“, en Sigvarður biskup og Hallvarður, og nú er
Hrafni bætt við til samræmis við áður gerðar sættir, riðu til Borgarfjarðar,
„og gengu þá Vestfirðingar undir þvílíka eiða sem aðrir menn“. Hrafn er
talinn í hópi þeirra, sem þar sóru, á sama hátt og í Hákonar sögu.
Það þarf ekki að fara mörgum orðum um heimildargildi þessarar frásögu,
enda eru þar allir fræðimenn á einu máli. Heimildargildi hennar er nákvæm-
lega ekki neitt. Það er gerð tilraun til að fella í eitt tvær frásagnir og með
viðbót reynt að skýra það fyrirbæri, að Vestfirðingar skulu vinna eiða sína á
Þverárþingi, en ekki koma á Þingvöll. Og skýringin er sú, að þar hafi þeir
viljað bíða sem reiddur vöndur yfir höfði Gissurar jarls, ef hann skyldi sýna
tregðu í að hamra í gegn konungs vilja.
En nú vill svo merkilega til, að þótt allir okkar ágætu fræðimenn séu sam-
mála um það, að frásögn Sturlu Þórðarsonar sé hin eina örugga heimild, sem
við eigum um gang mála hér á landi í sambandi við eiðtökuna 1262, þá hafa
þeir ekki viljað afskrifa heimildargildi frásagnanna í Sturlungu. Fræðimönn-
um hefur allt of mjög hætt við því að lesa Sturlungu án skarprar gagnrýni á
heimildargildi, og þeir vilja ógjarnan líta á nokkra frásögn hennar sem mark-
leysu. Fyrir þær sakir hefur þeim stundum hætt við að komast í meinlega mót-
sögn við sjálfa sig, og kemur það ekki sízt fyrir í sambandi við atburðina
1262. Skal nú bent á eitt áberandi dæmi.
Barði Guðmundsson gerir samanburð á Þorgils sögu skarða og Njáls sögu
í sambandi við leit að höfundi Njálu. Þar tekur hann sem hliðstæður sættir
Þorvarðar Þórarinssonar og Sighvats Böðvarssonar síðvetrar 1262 út af vígi
Þorgils skarða og sættir á fundinum eftir Njálsbrennu. Þar kemst hann meðal
annars svo að orði: „Verður ekki betur séð en Þorvarður hafi þar gefið heit
sitt um að „koma með Austfirðinga“ til næsta alþingis og styðja málefni Hall-
varðs og Vestfirðinga, ef Gissur jarl brygðist“. Hér tekur Barði frásögn
343