Tímarit Máls og menningar - 01.12.1962, Síða 84
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
vitað öngvan þátt í deighnuðli og steikingu, en þó hygg ég að fáum fyrir-
tækjum hafi verið stjórnað af viðlíka hagsýni. Allt var gernýtt, allt vegið og
mælt eftir nákvæmri reglugerð, allt þrauthugsað og skipulagt: aðdrættir, af-
köst, dreifing, innheimta, eftirlit, jafnvel ráð við strangri skömmtun, svo sem
á sykri. Ég er ekki að ljóstra neinu upp, þó að ég skrifi á blöðin þau arna að
frú Kamilla hafi stundum svarað í símann, þegar ég var að borga herbergis-
leiguna. Að vísu talaði hún undir rós, en sérhver auli hlaut þó að geta ráðið
af dulmáli hennar að fulltrúahjónin ættu að vinum greiðvikna yfirmenn í
báðum verndarherjunum, — og hvað ætli stórveldi muni um einn og einn
sykurpoka eða hveitipoka? Þannig stuðlaði margt að drjúgum hagnaði af
fyrrnefndri kleinutegund. Þegar minnkandi neyzla var fyrirsjáanleg, og frænk-
ur báðar úr Jökulfjörðum að gefast upp sökum æðahnúta á fótum, höfðu
frúrnar vit á því að bíða ekki eftir taprekstri, heldur snarhætta framleiðslunni
og snúa sér að öðru verkefni, lítilli vefnaðarvörubúð í miðbænum. En þá var
styrjöldinni að ljúka, og þá var frú Kamilla búin að eignast sévróletinn, auk
margra annarra góðra hluta.
Skrýtið, segi ég við sjálfan mig og fitla við blýantinn, hvað kom til?
Það rennur sem sé upp fyrir mér, að ég muni aldrei hafa séð doughnuts
á borðum á heimili frú Kamillu og Bjama Magnússonar, aldrei hafa fengið
þessa steiktu hringi með kaffinu þar, hvorki frammi í eldhúsi né inni í stofu,
— svo hagkvæmt og eðlilegt sem það hefði nú mátt virðast að frúin gripi
til þessarar ágætu framleiðslu sinnar í viðlögum.
Bjarni Magnússon skrifstofustjóri, Bjarnasonar, sýslumanns, Magnússonar
prests, var nokkru eldri en kona hans, skorti víst tvo í fimmtugt þegar ég flutt-
ist í hús þeirra hjóna, en leit út fyrir að vera hálfsextugur að minnsta kosti.
Þeir yngjast aftur, sem reskjast snemma, sagði hann eitt sinn á góðri stund,
— og hver veit nema hann láti það á sannast, þrátt fyrir gigtarköstin. Hann
hefur staðið sig vel að utanverðu í rúman áratug, haldið nokkurnveginn í
horfinu síðan 1940, bætt kannski fáeinum pundum framan á sig, orðið ögn
búlduleitari og rauðnefjaðri, mæðnari og svifaseinni, ögn fjarsýnni, hæru-
skotnari og þunnhærðari, svo að nákvæm þvergreiðsla hylur ekki lengur nema
þriðjung skallans. Að tiltölu er hann samt unglegri nú en vorið 1940, allténd
að utanverðu, — en hitt veit sá einn sem rannsakar hjörtun og nýrun, hvernig
hann ber aldurinn innanrifja.
Blessaður karlinn!
Ég sezt aftur við borðið og held áfram að skrifa um Bjarna Magnússon:
354