Tímarit Máls og menningar - 01.12.1962, Qupperneq 94
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
sem hæfileikum dætra hans leið, virtust þær öngvan áhuga hafa á námi, hvorki
til munns né handa, nema þá helzt ensku og gítarleik. í annan stað bar frú
Kamilla hóflega virðingu fyrir Menntaskólanum í Reykjavík, enda vissi hún
ekki betur en rautt orð hefði farið af honum árum saman, og mundi ekki
betur en stelpugreyið hún Sirrí, einkadóttir Svövu og Hilmars, hefði komið
þaðan með fleira en stúdentshúfuna, — kasólétt eftir ættlausan strák í fimmta
bekk, gallharðan bolsa, kjaftforan í þokkabót. Frú Kamilla treysti dætrum
sínum fullkomlega til að standast aðvífandi freistingar, sneiða hjá agni og
agni, sem rynni í veg fyrir þær af tilviljun, en hinsvegar datt henni ekki í hug
að tefla uppeldi þeirra og siðferðisþreki í sex vetra þrotlausa tvísýnu. Þess-
vegna dreif hún þær í Kvennaskólann, þar sem ungar stúlkur hlutu ekki aðeins
nægilega menntun að hennar dómi, heldur efldust að fögrum dyggðum, svo
sem reglusemi, forsjálni og heilbrigðum metnaði.
Það duldist víst fáum, sem kynntust fjölskyldu Bjarna Magnússonar, að frú
Kamilla hafði allan veg og vanda af uppeldi þessara tveggja dætra, að svo
miklu leyti sem þær ólu sig ekki upp sjálfar. Skrifstofustjórinn sá ekki sólina
fyrir þeim og gat ekki neitað þeim um neitt, ef þær báðu hann vel (þegar
móðir þeirra hafði brugðið sér eitthvað frá). Um föðurlega handleiðslu
hans var þó naumast að ræða, að minnsta kosti ekki svo styrka, að hún vekti
í senn öryggi og lotningu. Embættisannir og stj ómmálalotur stóðu slíkri
handleiðslu fyrir þrifum, sömuleiðis gestkomur, kvöldboð og bridds, að ég nú
ekki tali um gigtarköst og blönduneyzlu. Auk þess mátti ráða af ýmsu, að
skrifstofustjórinn bæri ekki neina þá hugsjón eða kenningu svo mjög fyrir
brjósti, að honum þætti taka því að leggja sig í framkróka til að innræta hana
dætrum sínum.
Vafalaust hafa sumar uppeldisaðferðir frú Kamillu verið ættaðar frá Akur-
eyri, svipaðar þeim sem foreldrar hennar beittu með góðum árangri áður en
fyrri heimsstyrj öld skall á. Tilfinningasemi, gælur og blíðuhót auðkenndu
ekki þessar aðferðir, en því fór samt fjarri að frú Kamilla væri hörð og tor-
tryggin móðir. Hún taldi svo sjálfsagt að sköruleg boð hennar og bönn væru
í heiðri höfð, að hún lítillækkaði hvorki sig né dætur sínar á sífelldum áminn-
ingum, smásmugulegu rexi og pexi, því síður njósnum og yfirheyrslum. Dætur
hennar, gæddar norðlenzkri kynfestu, hlutu að vera hreinskiftnar og sann-
söglar. Hún bannaði þeim að reykja fram að tvítugu, og þessvegna kom ekki
til mála, að þær væru að pukrast með sígarettur. Hún fylgdist með eyðslu
þeirra, fékk þeim í hendur hæfilegt skotsilfur um hverja helgi, og þessvegna
gat ekki átt sér stað, að þær fengju peninga í laumi hjá föður sínum. Hún var
364