Tímarit Máls og menningar - 01.12.1962, Page 98
HANNES SIGFÚSSON
Musteri drottins
HÁtt uppi í fjallinu sitja menn og reka fleyga í björgin. Þeir reiða sína
þungu hamra til höggs mörg þúsund sinnum á sólarhring, og þar eð þeir
skipta þúsundum þá skipta hamarslögin milljónum á sólarhring hverjum. Það
er furðuleg hljómlist sem berst yfir þveran dalinn frá iðju þeirra; háir gjallir
og þó snubbóttir tónar sem minna á steindepilskvak, en þúsundfaldaðir svo úr
verður sönglandi kór sem sífellt streitist við að ná háa c-inu.
En þegar staðið er við rætur fjallsins og horft upp hlíðar þess, og þegar
steinhöggvarana ber við loft uppi á bungunni, þá minna þeir á skorkvikindi
með reistar trjónur og sveiflandi fálmara sem gerast undarlega fjölþreifnir
um harðan steininn.
Högg við högg, stál við stál, stál við stein. Og syngjandi malmur sem
hljóðnar við þurrt gnegg steinsins. En það sem við sjáum hvorki né heyrum
er svitastokkið keyri sólarinnar sem ríður um bök þeirra langs og þvers, frá
dögun til kvölds.
Þannig er dagurinn þrunginn barsmíð milli sólar og steins, og mönnunum
þar efra finnst að þeir séu hið deiga efni sem lúð er án afláts: bein þeirra og
hold. Röðin er þessi: Barsmíð sólarinnar, barsmíð hamranna, barsmíð meitl-
anna, — og gagnbarsmíð hins harða steins. Og þeir vita að úr hinu deiga efni
verður til svartur kulnaður smíðisgripur: lík þeirra sjálfra.
Oðru hverju rofnar samfelldur gnýrinn af þungum dynkjum eins og stór-
tromman sé knúð til frekari áherzlu. Það eru grettistökin sem þeytast niður
fjallshlíðina í loftköstum og knýja fram stunur úr brjósti fjallsins. „Trumbu-
slagarinn“ virðist ekki hafa ýkja næmt eyra fyrir hrynjandinni, því oft líður
stundarfjórðungur án þess hann grípi til slagkólfanna. En verkið er líka samið
með eilífð fyrir augum, svo vera má að stundarfjórðungurinn sé aðeins sek-
úndubrot í eyrum höfundarins. Hver veit?
En hversvegna ýlfra flauturnar í miðjum stórtrommugnýnum?
Það eru menn sem æpa af skelfingu, og lemstraðir menn sem hafa orðið
fyrir grettistökum sem hafa geigað. Því þegar granítblakkirnar eru á niður-
368