Tímarit Máls og menningar - 01.12.1962, Page 102
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
Steinninn er svartur af elli, sagði hún. Ufff —
Eg skal lána þér jakkann minn, sagði hann, og hafði engar vöflur á heldur
snaraðist úr jakkanum og lagði um herðar henni. Og nú stóð hann þarna á
skyrtunni og skalf.
Hvað hún er tignarleg, sagði hún og hallaði sér upp að honum. Og sterk!
Og þó mjúk og lifandi, sagði hann. Eins og hundrað gosbrunnssúlur.
Turninn! sagði hún. Sjáðu turninn! Og hún reigði höfuðið svo að vangar
þeirra snertust og gullinn ennistoppur hennar blindaði hann með sinni ilmandi
mýkt.
Guð hjálpi mér, stundi hann. Hvílík kirkja!
Við skulum fara inn í hana, sagði hún og greip um hönd hans og teymdi
hann með sér að kirkjudyrunum. En þar varð hún snögglega mjög hátíðleg,
tók svarta skýluna sem hún hafði bundna um hálsinn og knýtti um hið sól-
bjarta hár.
Svona, sagði hún — nú skulum við ganga inn.
Þau leiddust hægt inn kirkjugólfið. Og yfir þeim glitraði háreist hvelfingin
skreytt ljómandi eðalsteinum, eins og stjörnur Drottins leiftruðu þar efra.
Kyrrðin var svo djúp að vel mátti ímynda sér að brúðarmars Mendelsohns
væri leikinn á orgel í miklum fjarska, og hvíslandi fótatak þeirra á mjúku
flosteppinu minnti á hvískur brúðkaupsgestanna á auðum bekkjunum. En
innst í kirkjunni Ijómaði kórinn, og þar stóð presturinn fyrir altarinu með
útbreidda arma líkt og krossmark — og beið þeirra.
Við skulum krjúpa, hvíslaði hún þegar þau stóðu frammi fyrir altarinu.
Og þau krupu, hlið við hlið, og héldust í hendur.
Þau fundu greinilega að það var heilagur staður sem þau krupu á —
musteri Drottins, reist fyrir sjö öldum af heitri innilegri og göfugri trú.
372