Tímarit Máls og menningar - 01.12.1962, Síða 112
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
Já.
Ætli við verðum ekki sendir í að hreinsa þarna úti. Við verðum að þessu
til klukkan sjö, og krækjum okkur í tvo eftirvinnutima. Það dregur sig saman.
Ætli sé ekki óhætt að við pústum, bara gerum eitthvað til málamynda.
Verkurinn var að segja, að bátarnir kæmu víst ekki fyrr en einhvern tíma
í kvöld, seint.
Ekki fyrr en klukkan tólf í nótt, sagði hann. Þeir eru að sperrast við þetta,
aflahæstu bátarnir, að leita um allan sjó að fiskinum. Það munar víst ekki
nema nokkur hundruð kílóum á þeim tveimur hæstu.
Þeir verða þá ekki búnir að landa fyrr en klukkan eitt í nótt. Og ekki fara
þeir að kalla fólkið svo seint.
Þeir vinna úr honum á morgun. Maður fær tímann til hádegis. Annars er
þetta víst einhver hörmung hjá flestum.
Vorum við ekki búnir að koma okkur saman um að mæta ekki?
Hinir karlarnir mæta, blessaður vertu. Það er ekki mikið mark á takandi
hvað þeir segja.
Annað hvort er að við mætum allir eða enginn.
Það er leiðinlegt ef einn mætir ekki.
En hvernig veiztu að þeir muni mæta?
F.g þekki þá. Þeir treysta ekki hver öðrum. Um að gera að treysta aldrei
neinum, þá verður maður ekki fyrir vonbrigðum. Ég veit að á morgun verða
þeir allir snemma á fótum, rétt fyrir átta. Og þeir verða að snuðra eitthvað
eða rjátla kringum húsin, og þegar þeir sjá hver aðra, hugsa þeir sem svo, —
ja þessi og þessi ætlar að svíkjast undan og mæta, og svo hlaupa þeir allir í
vinnuna af ótta við að einhver sé kominn niður í hús. Og þegar þeir koma
niður í hús segja þeir: Ja, fyrst maður er kominn hingað niðureftir á annað
borð, þá ...
Kannske er þetta hlægilegt, sannleikurinn er alltaf hlægilegur. En ekki færi
ég að missa tíma vitandi vits, og aðrir sætu að vinnunni, — sitja heima einn
og allir að vinna, — nei. Það yrði til lítils.
Auðvitað ef engin samtök eru ...
Puff. Samtök!
Auðvitað er þetta meinbægni af skipunum að koma ekki að fyrr en tólf.
Þeir ættu bara að segja við þá, að þeir tækju ekki fiskinn af þeim, komi þeir
ekki snemma að landi. Þetta gera þeir á öðrum stöðum. Það er skrítið að
hérna líðst þessum skipstjórum allur andskotinn.
Alls staðar, góði minn! Allt byggist á fiskinum.
382