Tímarit Máls og menningar - 01.12.1969, Page 87
Minn trúnaSur er ykkar trúnaSur
Svo sem Ijóst er orðið af þeim dæmum sem tekin hafa verið vakir maður-
inn sem miðdepill, maðurinn í samfélaginu við aðra og vandamál þessa sam-
félags, fyrir Þorsteini frá Hamri í verkum hans. Þegar náttúran, landslag
eða veður, birta eða vegarlengdir koma fvrir í kvæðum hans, er það yfirleitt
vegna gildis þeirra fyrir manninn eða sem tákn fyrirbæra úr mannlegu lífi
og atburða er snerta mannlegt félag. Víða kemur hér fram táknsæi Þorsteins,
og má benda á mörg dæmi er sýna þetta eðli náttúrulýsinga í kvæðum hans.
Taka má tam. kvæðið „Harðindi“ úr bókinni Lijandi manna land:
Harðnar á dalnum
og þó er einsog sum hús séu vel byrgð
ógrynni fjár ógrynni kynlegs silfurs
þekur túnbleðlana einsog sandrof
útlendíngasnjór
segja börnin og þora ekki að snerta
nema sum fyrir áeggjan miðaldra feðra
Hér er þegar kveðið upp úr með hvað skáldið er að fara, og það fléttar saman
myndirnar: „harðindi á dalnum“, „túnbleðlar“, „sandrof“, „snjór“; en hins
vegar: „sum hús eru vel byrgð“, „ógrynni fjár“, „kynlegt silfur útlendinga“;
og að lokum: „áeggjan miðaldra feðra“. Fyrsta erindinu lýkur þannig á
ádeiluglettu. í næsta erindi heldur skáldið áfram þessari tvíhverfu mynd og
veltir myndhvörfunum fyrir sér, en um leið fær kvæðið enn skýrara félags-
legt inntak:
sumt fólk
þykist kenna þar einn og einn eyri frá sér
erfiðismenn og slíkir
harðnar á dalnum og sumum
á að nægja sitt nöldur:
jú að sönnu má kalla það framtak
að deyja
Veðurlýsingin og harðindin eru tákn atburða í samfélaginu, í senn ádeila
og hvöt svo sem fram kemur í lokaerindinu:
harðnar á dalnum
en dýrmætt hve sum spor varðveitast
í þessum brunagaddi
augum vorum til vöku
harðnar á dalnum og minni vort
styrkist í vindum
meðan einstaklíngsfrelsið fyllir svöl brjóstin
309