Tímarit Máls og menningar - 01.07.1977, Page 28
Tímarit Máls og menningar
skógarins. En jafnframt urSum við þess vör að við höfðum verið leidd
inn í sjálf fylgsni skógarins þar sem tréin ríktu ekki ein, heldur í samlífi
við undirgróðurinn allan, með rætur djúpt í moldu, grös og blóm og
leyndardómsfulla sveppi er hjúfruðu sig að trjánum, og við fórum að
sjá sýnir og heyra nið í skóginum og sjá blómálfa og annað kvikt skjót-
ast í runnunum. Og allt í einu heyrðum við undursamlega ómfeguíi,
eins og samkór þúsund radda, og var eins og undir tæki í hlíðum og
fjöllum, skógi og vatni, og byggðin yrði harpa með hundrað þúsund
strengjum, og nú skynjuðum við fyrst hið dularfulla við skóginn og
þessa byggð og sáum að ekki var seinna vænna að forða sér héðan, ef
við áttum ekki að verða heilluð hér inn í holt eða kletta og í skógar-
dans um nætur.
Kæri Hrafn, við þökkum vinarhug þinn allan og heimboðið sem þú
sérð að við höfum haft skemmtun af. Við biðjum að heilsa öllum er við
kynntumst á staðnum, skógardísinni dóttur þinni, vinkonum hennar og
æskuvinum, og verslunarstjóranum góða.
Þóra biður þig að panta handa sér tvö spæni af sömu gerð og Sigrún
á. Þá vonumst við til að sjá ykkur þegar þið komið í bæinn, eða næst
þegar þú þarft að styðja við bakið á stjórninni.
Með bestu kveðju frá okkur Þóru
Kristinn E. Andrésson.
Bréf þetta er birt með góðfúslegu leyfi Hrafns Sveinbjarnarsonar og Þóru
Vigfúsdóttur.
138