Tímarit Máls og menningar - 01.06.1979, Blaðsíða 78
Olga Guðrún Árnadóttir
Börn dags og nætur
Anna Júlía jarðar fugla.
Hún leggur þá í tómar öskjur og grefur þá í garðholunni á bak við hús.
Hún sýngur yfir þeim útfararsálma frá eigin brjósti og leggur fíflakransa
á leiðin. Stundum grætur hún nokkrum tárum oní moldina og yfir blómin,
en ekki oft. Hún grætur ekki oft. Og næstum aldrei þegar einhver sér til.
Það deyja margir fuglar.
Þeir lenda á símalínunni og vængbrotna, þeir tæta sundur brjóstin á
gaddavír, þeir bíða ósigur fyrir stærri fuglum, og sumir lenda í klóm
kattanna.
Anna Júlía hefur mikið að gera í garðinum.
Hún leikur sér oftast ein.
Ef hún kærði sig um gæti hún átt næga leikfélaga. I húsunum í kríng
búa margir krakkar á hennar aldri, en hún kýs að vera ein.
Þá getur hún verið einráð í leikjum sínum, ákveðið efni þeirra og inni-
hald, upphaf og endi. Hún þolir illa háreysti og hræðist ofsann sem tíðum
fylgir leikjum hinna barnanna.
Stundum verður hún að hafa Manna litla bróður sinn með sér, á laugar-
dögum og sunnudögum, því þá er hann ekki á dagheimilinu.
Hún vildi svo miklu heldur vera ein. Henni leiðist Manni, - meira en
það, hún er hrædd við hann, jafnvel þó hann sé bara fjögra og hún næst-
um orðin sjö.
Manni er mikill byssubófi.
Vopnasafn hans er ótrúlega fjölbreytt: vatnsbyssur, skammbyssur, rifflar,
vélbyssur, skriðdrekar, — nóg til að halda uppi blóðugum styrjöldum frá
morgni til kvölds.
204