Tímarit Máls og menningar - 01.10.1981, Síða 95
Bárður kœri skattur
— Fyrir tveimur árum . . . held ég . .. þá hirti hann mig upp úr
Nýhöfninni og fór með mig um borð í vitaskipið þar sem hann bjó. Þarna
hjúkraði hann mér, gaf mér að éta og vék ekki frá mér í hálfan mánuð. Ég
var illa staddur í þá daga. Hann var búinn að mála bátinn hátt og lágt,
skreyta veggina með slíkum málverkum, að hvert listasafn hefði mátt vera
stolt af því að eiga þótt ekki hefði verið nema eitt þeirra. Einu sinni kom
til hans frægur listamaður og keypti af honum eitt málverk fyrir eina
flösku. Stuttu seinna hélt þessi málari sýníngu, og þá hékk myndin hans
Bárðar á besta stað í salnum, merkt þessum listamanni. Bárður fór á
sýnínguna og ætlaði að taka myndina með sér heim. En þá var kallað á
lögregluna og honum stúngið í steininn í mánuð, sakaður um óspektir á
almanna færi og tilraun til að stela málverki. Svona er þetta, Íslendíngur.
Allt byggist upp á því að stela frá öðrum á einhvern hátt. . . sjúga
sakleysíngjana og kúga þá sem minni máttar eru, svíkja og sleppa við að
gera skyldur sínar, en láta aðra gera þær fyrir sig. A ég að segja þér eitt.
Einu sinni vann ég sem flutníngamaður hjá fyrirtæki. Við vorum alltaf
þrir saman. Annar þeirra sem vann með mér hvarf alltaf ef við þurftum að
vinna eitthvert erfitt verk. Þá gufaði hann bara upp, helvítis þrjóturinn.
Einu sinni vorum við að burðast með stóran fataskáp ofan af sjöttu hæð.
Þá hvarf hann, þessi félagi okkar, allt í einu og við vissum ekkert hvert
hann fór. Þegar við vorum komnir með skápinn niður á aðra hæð gat ég
ekki leingur setið á mér og fór að öskra á kallinn. Þá heyrðist bánkaö í
hurð rétt hjá okkur og hann kallaði: Ég er hérna inni í skápnum, einhver
verður að halda við hillurnar!
— Er þetta satt?
— Ég skrökva aldrei. En þarna sérðu, fólk vill helst láta aðra bera sig
áfram í lífinu og þegar að þreingir, rísa allir upp á afturfæturna og krefjast
sinna réttinda. Braskarar svíkja undan skatti, en verða svo ólmir af reiði ef
ríkið hleypur ekki undir bagga þegar kreppir að þeirra eigin hæl. Þeir
heimta sjálfir að reka verksmiðjurnar sínar og græða á þeim þegar vel
geingur. Svo vilja þeir sleppa við að borga skattana sína.
— Heldurðu að Bárður hafi borgað skatt? spurði ég.
— Já, á meðan hann var læknir.
— Var hann alvöru læknir?
341