Tímarit Máls og menningar - 01.10.1981, Síða 109
Eru Islendingar kristnir?
kirkju, til þess samfélags sem Kristur stofnaði. Siðbreytingin (eða siðaskiptin,
sem svo hafa verið nefnd,) hefur eflaust aukið á þennan klofning. En hvað sem
um það má segja, þá má hér eflaust finna skýringuna á ýmsum sérkennum
íslenskrar kristni fyrr og síðar og lika á þeirri staðreynd að margir Islendingar eru
hikandi við að svara afdráttarlaust og af einlægni spurningunni hvort þeir séu
kristnir eða ekki.
Hvort eða hvenær til þess kemur að íslendingar taki trúarlif sitt til ræki-
legrar endurskoðunar skal engu spáð um, þaðan af síður hver yrði niðurstaða
þeirrar skoðunar. En slík endurskoðun er okkur nauðsyn, ef við viljum þekkja
sjálf okkur og vera við sjálf. Og til hvers lifum við, hvaða gagn gerum við
heiminum, ef við vitum ekki hver við sjálf erum?
ATHUGASEMD
Ein athugasemd leiðir af sér aðra, þótt í litlu sé. I 2. hefti Tímaritsins, bls. 247 — 48, er
ábending frá Gunnari Stefánssyni til umsjónarmanns ritsafns Jóhanns Sigurjónssonar,
Atla Rafns Kristinssonar, varðandi nokkur bréf frá skáldinu, m. a. þau sem hann ritaði
Þórði Sveinssyni lækni. Gunnar bendir réttilega á, að sex þessara bréfa hafi verið prentuð
í Samvinnunni 6. h. 1969, bls. 56—69- Þá birtir Timaritið svar umsjónarmannsins. ritað
i Kaliforníu vestur, og lýsir hann þar ítrekuðum viðtölum sínum við sonu Þórðar og
tengdadóttur, en var svo óheppinn að ramba ekki á þann niðjann, sem bréfin birti, Hrafn
Gunnlaugsson. Enn fremurgetur Atli þess, að umrædd prentun bréfanna hafi ekki verið
í skrám Landsbókasafns, og ritstjóri bætir við, að svo sé ekki enn.
Allt þetta ramb og ról hefðu menn getað sparað sér með því einu að fletta upp i
Bókmenntaskrá Skirnis, en þar er prentun bréfanna tilfærð við árið 1969. Bókmennta-
skrá þessa hefur Hið islenska bókmenntafélag gefið út árlega síðan 1968. Hún tekur til
siðari tima bókmennta, og eru nöfn höfunda færð upp i stafrófsröð og undir nafni hvers
og eins tilfært allt sem um þá hefur verið ritað á umliðnu ári, eftir þvi sem til hefur
náðst.
Þetta átti aldrei að vera annað en litil ábending um ofur einfaldan hlut, svona rétt til
að setja punktinn yfír i-ið.
22.10.1981
Einar Sigurðsson.
355