Tímarit Máls og menningar - 01.04.1984, Blaðsíða 15
Gamlar nýstefnur
ari pest en berklaveikin sem hrjáði skáldin í þá daga. Reyndar má nú athuga
að varla hafa aðrir fræðingar orðið Brandes frægari á okkar jarðarparti, og
gæti það skýrt margt. Kannski blandast líka inní áhrif frá popptónlistinni,
þarsem hver reynir að vera fyrstur að sjá fyrir nýtt bítlaæði.
Nýjasta dagskipunin er líklega krafan um suðurameríska fantasíu, svo-
kallað magískt raunsæi. En ég held að það geti ekki verið nein móðgun við
stíltilraunir suðuramerískra höfunda og árangur þeirra að efast um að í þeim
felist stóridómur, rétta svarið við öllum spurningum nútíma skáldsagna-
gerðar. Svo að eitt sé nefnt: Þegar sögupersóna er gædd goðsögulegum
karakter, hafin uppúr ryki jarðarinnar, þá er með því búið að loka fyrir
marga möguleika í persónusköpuninni; vegna þess að það er í smæð sinni,
ósigrum, vangetu, fáfengileika, sem við kynnumst einstaklingnum. (Þetta
sést vel ef skoðuð er hryggileg reynsla þeirra sem hafa ætlað sér að skrifa
bækur um algóða menn. Og líka ef skoðuð er ástæða þess að Dostojevskí
lánaðist það best). Meðan sagnagerð er ekki úrelt verður persónusköpun
það ekki heldur. Samt væri fáránlegt að halda að íslenskir höfundar gætu
ekkert af suðuramerískum kollegum lært. Og þótt það sé ekkert nema
íslensk sveitamannabábilja að vara við „útlenskum tískustefnum“, þá er það
ekki síður nauðsynlegt en að hlera eftir hræringum umheimsins, bæði fyrir
einstaka höfunda og íslenskar bókmenntir í heild, að reyna að skapa sér
eigin stíl, karakter. Annars getur svo auðveldlega farið hjá þetta fámennri
þjóð að bókmenntirnar lendi í sama glamrinu og íslenska popptónlistin á 7.
áratugnum, þegar þessir sárafáu músíkantar þurftu að taka algerum ham-
skiftum á nokkurra mánaða fresti; þeir sem mynduðu þúsundvolta báru-
járnsrokkband að vori máttu breytast í mjóróma þjóðlagatríó með kassagít-
ara um haustið. Svo bauð þeim tískan.
I lokin nokkrar staðhæfingar, kannski almenn sannindi, en þau gætu átt
við þarsem fundurinn er haldinn af bókmenntafræðinemum: Það er eitthvað
sem ekki er hægt að skýra út frá stefnum, formum, vísindalegum vangavelt-
um, sem ræður því að sumar bækur eru góðar, og aðrar ekki. Þetta annað og
meira verður heldur ekki skýrt með „persónulegum smekk hvers og eins“;
það sem fær mann til að skynja eitthvað sem list er einhver tilfinningalegur,
metafýsískur faktor, sem ekki er gjaldgengur í raunvísindum, og sú stað-
reynd ætti að segja mönnum það eitt að bókmenntir verða aldrei til fulls
skýrðar með vísindalegum aðferðum. Það sem er á ferðinni; þessi galdur,
þetta kikk; er það sama og veldur því að ákveðin uppröðun tóna myndar
góða laglínu, meðan einhver önnur, jafnvel nauðalík, er ekkert nema pirr-
andi óhljóð. Þeir sem flokka bókmenntir og greina, en hafa ekki tilfinningu
fyrir þessum listræna kjarna, ættu að halla sér að krossgátublöðum.
133