Tímarit Máls og menningar - 01.04.1984, Blaðsíða 68
Tímarit Máls og menningar
IV
A einum stað í bók sinni (bls. 22) vitnar Carol Clover í fræðimann sem
sakaði Einar Ólaf Sveinsson um að hafa í greiningu sinni á byggingu Njáls
sögu komið sér kirfilega fyrir báðum megin við hina fræðilegu girðingu
(„planting himself . . . massively on both sides of the critical fence“). Eg veit
ekki hvort það eru heldur áhrif frá mínum gamla og góða kennara eða
íslenskt, jafnvel skaftfellskt, sérkenni, þegar ég hef tilhneigingu til sömu
viðleitni í mati mínu á þeim tveim ritum sem hér eru til umræðu.
Eins og bókfestumenn hafa löngum bent á er sá hængur á öllum kenning-
um um óskráðar íslendingasögur að þær eru ekki lengur til og því óhægt um
vik að finna leiðir til að meta gildi kenninganna. Bóksögurnar eru hins vegar
til og hljóta að vera verk rithöfunda. En kenning um ísjaka sem aðeins er
miðuð við þann hluta hans sem stendur upp úr sjónum hlyti að vera röng,
jafnvel þótt við hefðum engin tæki til að kanna það sem er neðansjávar.
Vissulega er hægt að hugsa sér villukenningu um neðansjávarfyrirbæri sem
ráði örlögum ísjakans, td. þá að hver ísjaki liggi á bakinu á hval sem syndi
með hann um höfin, en nú vill svo til að út frá ljósmynd, sem aðeins sýnir
þann hluta ísjakans sem stendur upp úr, er hægt að vita ýmislegt um þann
hluta hans sem er niðri í sjónum. Sagnafræði verður aldrei eins nákvæm og
hafísfræði, en hún þarf ekki heldur að byggja á einskærri hjáti-ú eins og
kenningin um hvalinn. Ymislegt er vitað um munnlega frásagnarlist.
Þótt varðveisla konungasagna sé með þeim hætti að alltaf hljóti að verða
nokkur óvissa um þróun þeirra, er hægt að vita meira um hana en þróun
annarra greina fornrar sagnaritunar. Þau dæmi sem við höfum um konunga-
sögur frá 12. og 13. öld sýna að bókmenntaleg áhrif hafa verið mikilvæg í
þróun þessarar greinar, og hér hefur Carol Clover aukið verulega við
þekkingu okkar með riti sínu. En gildi hinna bókmenntasögulegu skýringa
er takmarkað þegar kemur að bestu konungasögum, ritum Snorra. Við
getum séð snilld hans sem sagnfræðings og rithöfundar í því hvernig hann
vann úr heimildum sínum, en snilld Snorra er, þrátt fyrir allt, ekki einangrað
fyrirbæri. Elstu Islendingasögur, td. Heiðarvíga saga, eru væntanlega eldri
en rit Snorra, og sama má segja um margar listavel sagðar sögur eins og
Færeyingasögu eða ýmsar frásagnir í Morkinskinnu. Ekkert þessara verka
ber vitni um sömu snilld og Heimskringla, síst af öllu í því að setja saman
langt verk úr sundurleitu efni, en frásögn einstakra atvika, jafnvel alllangra
atvikakeðja, er oft mætavel gerð í þessum sögum.
Nærtækasta skýringin á þeim blóma, sem verður í íslenskri sagnaritun á
13. öld, er farsæll samruni innlendrar sagnahefðar og þeirrar rithefðar sem
vaxið hafði fram á 12. öld. Til þess að sá samruni gæti orðið þurftu vitaskuld
186