Tímarit Máls og menningar - 01.04.1984, Blaðsíða 60
Tímarit Máls og menningar
staklega bóklegt fyrirbæri. Sú kenning virðist þó fá stuðning af því sem bent
er á í MS að í latínuritum og ritum á frönsku frá 12. og 13. öld er fjöldi
dæma um formúlur sem eru sama eðlis og stundum nánast orðrétt eins og
íslenskar tengiformúlur.
I lokakafla MS eru niðurstöður dregnar saman í sögulegt yfirlit. Þar er
fyrst fjallað um þá texta sem kalla má for-klassíska, þe. frá Islendingabók og
fram að Snorra. Bent er á að í Islendingabók sé um einþætta frásögn að ræða
þótt efnið sé sundurleitt. Hins vegar er talið að í Landnámabók sé um að
ræða vísi að samþættingu. Við þetta er það að athuga að Islendingabók er
þess háttar rit að þar gat naumast komið upp þörf á samþættingu, en í Land-
námabók er efnið í eðli sínu margþætt. Annars er það meginatriði í kenn-
ingu bókarinnar að samþætting aukist smám saman og verði í senn flóknari
og haglegri eftir því sem nær dregur hinni klassísku sagnagerð. Þessi niður-
staða leiðir til annarrar: að samþætt frásögn sé ekki komin frá munnlegri
frásagnarlist heldur hafi orðið til við bókmenntalega þróun, sem hafi ein-
kennst af stöðugri viðleitni til að tengja allsundurleitt efni saman í stærri og
stærri heildir. Má þá væntanlega samkvæmt þessari kenningu rekja hvort
tveggja, viðleitnina og aðferðirnar, til erlendra áhrifa, sem Carol Clover tel-
ur sýnilegri í þessum for-klassísku verkum en hjá Snorra eða í Islendinga-
sögum, þar sem aðferðin hafi yfirleitt náð slíkri fullkomnun að hin erlendu
áhrif leynist lesandanum.
I þessum lokakafla eru einnig settar fram ályktanir um hlutfall sagnahefð-
ar og rithefðar í sögunum: munnleg eru þau fyrirbæri talin sem eiga sér enga
hliðstæðu í latneskum heimildum en hins vegar í frásagnartækni þjóðsagna:
smæstu einingar atburðafléttunnar allt upp í einstaka þætti. Síðan er bætt
við (bls. 182):
Það fellur utan ramma þessarar rannsóknar að endurgera sögu í
munnlegri geymd, en helst er hægt að láta sér detta í hug að bygging
frásagnarinnar hafi verið líkari því sem hún er í þáttum eða fornaldar-
sögum en í hinum eiginlegu Islendingasögum.7
I framhaldi af þessu er ályktað að sagnahefðin kunni að hafa átt þátt í varð-
veislu og mótun einstakra atriða, en að skipan þeirra í stórar og flóknar
heildir hljóti að vera bókmenntaleg þróun í beinu framhaldi af hinum
latnesku áhrifum á 12. öld.
Þótt Carol Clover telji þannig að latnesk áhrif geti nægt til að skýra
byggingareinkenni Islendingasagna, finnst henni þó að svo margt sé skylt
með byggingu þeirra og prósarómananna frönsku frá sama tíma að vart geti
verið um tilviljun að ræða, enda þótt erfitt sé að sanna bein áhrif þar sem
178