Tímarit Máls og menningar - 01.11.1986, Blaðsíða 104
Tímarit Máls og menningar
„Þetta eru eins og maurar sem koma allt í einu út í sólskinið og
bera hver um sig hvítt egg í munninum," sagði ég við Winní.
„Eða eins og sýklar,“ sagði Winní, eins og hvítar veirur í stórri
slagæð. Blóðkornin ráðast á þær og gleypa þær, en þau geta ekki
gleypt þær eins hratt og þær tímgast.“
Eg starði á hana því slíkur talsmáti var henni framandi. Hún tók
snúð af fatinu og dýfði honum í svart kaffið — grönn, sólbrún
höndin skalf dálítið. Augun í henni voru stór og gljáandi og þegar
hún talaði komu setningarnar í gusum. Hún var ólík sjálfri sér. Og
innra með mér fann ég líka sjálfur þessa spennu. Við hringsóluðum
um göturnar allan morguninn og sáum hvernig blóðkornin börðust
við hvítu veirurnar. Þau gleyptu þær og meltu, og síðan lágu þær
allsstaðar á götunum eins og hvítur saur. En veirunum fjölgaði jafnt
og þétt. I öllum götum sáum við gangandi dagblöð. Við sátum undir
sóltjöldum hér og hvar og sáum þetta. „En það er engin ástæða til að
taka mark á þessu,“ sagði ég, „því fyrirsagnirnar væru þá stærri. Fólk
myndi safnast saman og láta heyra í sér. Mundu að þetta eru
Frakkar.“
„Já, bara að maður heyrði þá hrópa,“ sagði Winní. „Þeir segja ekki
orð. Þú heyrir þó að þeir segja ekki eitt einasta orð.“
Þetta var satt, ég tók líka eftir því. Það heyrðist ekkert nema
stöðugur umferðargnýrinn. Menn hvorki brostu, kölluðu né skömm-
uðust. Meira að segja á gangstéttarkaffihúsunum þagði fólkið í
kringum okkur, það sat bara og las blöðin.
En þegar við komum heim í götuna okkar gleymdum við þessu
alveg, því þar var allt eins og vanalega. Fjölskyldan á móti mataðist
við opinn gluggann og holduga stúlkan var farin að bíða eftir
ástmanninum. Hann kom í seinna lagi og stóð ekki við nema stutt.
Rúllugardínan var ekki dregin fyrir gluggann. Að öðru leyti var allt
eins og vanalega.
Daginn eftir barðist slagæðin enn við hvítu veirurnar. En nú var
farið að bóla á alveg nýju smiti: Einkennisbúningum. Bæði brúnum
og bláum einkennisbúningum. Það sáust ekki margir óbreyttir her-
menn, aðeins liðsforingjar. Allt í einu voru þeir komnir, eins og svar
við einhverju tilteknu merki. Þeir hurfu inn í undirganga og komu
þaðan út aftur, með skjalatöskur, svipurinn ábúðarmikill og óræður
undir eikarlaufinu. Menn horfðu á þá og viku úr vegi fyrir þeim.
502