Tímarit Máls og menningar - 01.11.1986, Blaðsíða 92
Tímarit Máls og menningar
Nú þykir mér Dire Straits betri en bæði Wham og Duran Duran, en
þeir eru samt líka ofsalega góðir oft.
Ég er búinn að týna vasatölvunni minni og ég skil það bara ekki. Ég
fór ekki með hana í skólann, alveg víst, en það gerir ekkert mikið til,
svona tölva kostar ekki neitt mikið. Mér finnst það bara svo skrýtið
af því að ég týni aldrei hlutum og ég man að ég var með hana í gær.
Nína segist ekki hafa séð hana, og hún er hér aldrei inni.
Mamma lét mig hafa fyrir nýrri tölvu og ég ætla að kaupa hana á
morgun.
Ég sá dáldið skrýtið í kvöld, ég sá að Oggi var búinn að skæla, ég er
alveg viss. Þegar ég kom úr strætó þá var hann að fara upp í og við
bara sögðum hæ, og þegar hann fór fram hjá þá sá ég að hann var
allur svo rauður í framan og blautur um augun og nefið. Ég ætla að
spyrja hann á morgun. Ég er að hugsa um að spyrja hann samt ekki
vegna þess að hann mundi aldrei segja það. Ég hef ekki skælt síðan ég
datt á hjólinu, og þá skældi ég bara lítið þó mér svimaði alveg
voðamikið fyrst og kenndi til í hnénu og handleggnum. Ég veit núna
að það var alveg mér að kenna því ég átti ekkert að vera að hjóla í
svona mikilli hálku eins og aumingi.
Ég man alveg af hverju ég skældi næst þaráður, það var í fyrra þegar
hann Stjáni og þeir sögðu að ég hefði verið með í að stela dúfunum
eða látið þær sleppa. Þeir voru líka tveir saman og miklu stærri en ég.
Ég mundi als ekki hafa skælt ef þeir hefðu ekki pínt mig. Þeir voru
ræflar, og ég er feginn að þessi Stjáni flutti burt strags á eftir. Höddi
er ókei, og við vorum vinir þegar Stjáni var farinn. Það eru bara
ræflar sem pína aðra stráka margir í einu. Það er líka stránklega
bannað að hafa dúfur í kjallaranum.
Ég skrifa altaf lítið í einu í þessa bók LEYNIBÓKINA MÍNA og
bara þegar mér langar til áður en ég fer að hátta því þetta er ekki
dagbók eða svoleiðis Ég á eftir að skrifa alveg geysi margt í bókina
það er ég alveg viss um en ég er bara svo fljótur að verða þreyttur á að
skrifa og verð oft syfjaður fljótt á eftir þegar ég er bara að birja.
490