Tímarit Máls og menningar - 01.11.1986, Blaðsíða 12
Einar Már Jónsson
Hugarfarssaga
1.
Sú grein sagnfræðinnar, sem nefnd hefur verið „hugarfarssaga", er af
frönskum uppruna, og var hún skilgreind og mótuð þar í landi, þótt
Frakkar hafi síðan viljað flokka undir hana verk ýmissa erlendra sagnfræð-
inga. Annars staðar hafa menn fremur fengist við það sem kallað hefur verið
„menningarsaga" og „hugmyndasaga" — og hafa þessi orð verið notuð mjög
almennt á íslensku — en þær greinar sagnfræðinnar eru þó að nokkru leyti
annars eðlis. Þegar sagnfræðingar utan Frakklands fást nú beinlínis við
hugarfarssögu (og nota það orð), eru þeir gjarnan undir nokkuð augsýni-
legum frönskum áhrifum og vísa þá til franskrar hefðar og fyrirmynda. Ef
menn vilja gaumgæfa hugarfarssögu, skilgreiningu hennar, eðli og vanda-
mál, er því best að byrja á að líta á þróun hennar og stöðu innan franskrar
sagnfræðihefðar og huga að því hvað er tengt frönskum séraðstæðum og
hvað hefur almennara gildi.
Eins og hugarfarssagan er nú tíðkuð í Frakklandi er hún angi af þeirri
víðkunnu hreyfingu í sagnfræði, sem kennd er við tímaritið Annála, og má
segja að erfitt sé að skilja hana frá þróun og sveiflum þeirrar hreyfingar.
Fyrsta kynslóð Annála-hreyfingarinnar, frá því að tímaritið var stofnað
1929 og fram á heimsstyrjaldarárin, skipti sagnfræði í tvær megingreinar:
„atburðasögu" annars vegar og „efnahags- og þjóðfélagssögu“ hins vegar.
Munurinn var sá að „atburðasagan", sem þessir sagnfræðingar fordæmdu að
miklu leyti, fjallaði einungis um mikilmenni sögunnar, stóratburði eins og
styrjaldir, uppreisnir o. þ. h., og stjórnarfar sem þeim var tengt (konungs-
vald, lýðræði og slíkt). „Efnahags- og þjóðfélagssagan“ fjallaði aftur á móti
um almenning, líf hans og viðhorf, þjóðfélagsbyggingu, efnahagskerfi og
strauma samfélagsþróunarinnar í breiðum skilningi. Yfirlýstur tilgangur
tímaritsins Annála var þegar í byrjun að vinna þessari síðari grein sagnfræð-
innar brautargengi. Sagnfræðingar fyrstu kynslóðar hreyfingarinnar gerðu
ekki neinn sérstakan greinarmun á efnahags- og þjóðfélagssögu og hugar-
farssögu, sem þá var fremur kölluð „menningarsaga", heldur höfðu þeir
tilhneigingu til að setja þetta allt undir einn hatt og líta á það í sameiningu
sem eins konar „heildarsögu“, — sem gæfi „heildarmynd" af þjóðfélaginu
410