Tímarit Máls og menningar - 01.11.1986, Blaðsíða 26
Tímarit Máls og menningar
og hafði í för með sér ofsóknir gegn saklausu fólki og galdrabrennur.
Sagnfræðingar nefna það oft sem skýrt dæmi um breytingu á hugarfari
manna í álfunni, hvernig dómarar á seinni hluta 17. aldar hættu smám saman
að ákæra menn fyrir galdra, þótt trúin á slík fyrirbæri væri ekki að öllu leyti
úr sögunni.
Segja má að ótti við drauga, galdramenn og kvennaþjófa með eiturlyfja-
sprautur sé ástæðulaus og verði að flokkast undir hjátrú — enda fer því fjarri
að hann sé jafnan til staðar — en unnt er að benda á ótta sem er af eðlilegum
ástæðum sammannlegur en tekur þó á sig ólíkar myndir á hinum ýmsu
tímabilum sögunnar: óttann við dauðann. Rómverska skáldið Lúkretíus
heldur fram þeirri kenningu, sem mörgum þætti furðuleg nú á dögum, að
þessi ótti sé undirrót félagslegrar upplausnar eins og þeirrar sem var í
Rómaveldi á hans dögum, og því sé nauðsynlegt að vinna bug á honum. Svo
virðist sem menn hafi á þessum tíma einkum verið hræddir við einhver
grimmileg örlög hinum megin, og því reynir Lúkretíus, eins og meistari
hans Epikúr, að losa menn við þennan ótta með því að sanna að ekkert
framhaldslíf sé til, — sálin deyi áreiðanlega með líkamanum. I þetta ver hann
3. bók ljóðabálks síns Um náttúruna, og eftir að hafa talið upp einar þrjátíu
sannanir fyrir sínu máli, setur hann fram fagnaðarboðskapinn í einni
meitlaðri ljóðlínu:
Nil igitur mors est ad nos neque pertinet hilum.
„Dauðinn er þess vegna ekkert og kemur okkur ekki ögn við.“ Þessi
kenning, sem komin er frá Epikúr, virðist hafa fengið talsverðan hljóm-
grunn hjá Rómverjum þessa tíma, því að bergmál af henni kemur oft fyrir á
áletrunum á legsteinum. Sams konar hugmynd um að fyrst og fremst beri að
óttast dauðann vegna hættunnar á einhverjum skelfingum hinum megin
kemur mjög skýrt fram í Hamlet:
To die, to sleep;
To sleep, perchance to dream — ay, there’s the rub:
For in that sleep of death what dreams may come,
When we have shuffled off this mortal coil,
Must give us pause.
(I íslenskri þýðingu Helga Hálfdanarsonar frá 1970:
Deyja í svefn, —
svefn, kannski drauma-dá! jú þar er snurðan;
því hvaða draumar dauðasvefnsins vitja,
424