Tímarit Máls og menningar - 01.11.1986, Blaðsíða 102
Tímarit Máls og menningar
við gluggann og við borðuðum ávexti og drukkum bændavín. Nú
vorum við líka með blóðrauða melónu — þau hinum megin gátu séð
það, og vissu líka að við höfðum fengið lystina við að horfa á þau.
Þau brostu til okkar. Holduga stúlkan stóð í opnum glugganum á
hæðinni fyrir ofan og renndi augunum í átt að breiðgötunni, þaðan
sem hún bjóst við svarthærða, sólbrúna elskhuganum sínum. Hún
var búin að standa lengi fyrir framan spegilinn að leggja á sér hárið og
laga sig til og nú var hún orðin hálf óþolinmóð, því það var komið
fram yfir tímann. A hverjum degi var komið dálítið fram yfir tímann.
En loksins kom hann niður götuna — við gátum okkur þess til af
tilburðum hennar, þó við gætum ekki séð hann, en hún hörfaði
afturábak frá glugganum og gerði sér upp kæruleysi. Svo sem eins og
þegar maður gengur um gólf og raular og lætur eins og sér standi á
sama. Og lagfærir á sér hárið og lítur snöggt í spegilinn. Og sest með
handavinnu og hefur setið þannig lengi og alls ekki búist við neinum.
— Við sáum þau heilsast uppi í herberginu, sáum hvernig stúlkan
lagði holdugan líkama sinn þétt upp að honum, eins og franskar
stúlkur gera. Þannig að líkami hans snerti líkama hennar allsstaðar —
nema bara andlitið, sem sveigist afturábak og brosir stríðnislega og
hefur ekki gefist honum enn. En skömmu síðar hörfuðu þau lengra
inn í skuggann og við gátum ekki séð af þeim annað en fingur hennar
í þykku svörtu hnakkahári hans, ofan við sólbrúnan hálsinn. Svo
kom hún allt í einu út að glugganum og dró rúllugardínuna niður og
okkur sýndist hún brosa snöggt til okkar um leið og hún hvarf.
Við drógum líka rúllugardínuna niður.
Við fengum ekki mörg bréf og gleymdum fljótt því sem í þeim
stóð. En svo rann upp sá dagur þegar stóð í einu bréfinu: „Hvenær er
von á ykkur heim? Nú eruð þið líklega hætt við að fara upp í
Pýreneafjöll?“ Við skildum þetta hálf illa, hversvegna ættum við að
hafa hætt við það? Að vísu vorum við næstum hætt við ferðina,
þorðum eiginlega ekki að minnast á fjöllin hvort við annað, því þau
voru orðin dálítið brosleg. En hvernig gat bréfritarinn vitað það?
Nokkrum dögum seinna fengum við annað bréf, sem var frá
móður Winníar: „Þið verðið að drífa ykkur heim sem fyrst. Við
erum ekki í rónni fyrr en við sjáum ykkur." Þá rann upp fyrir okkur
að það hlaut að vera stjórnmálaástandið sem átt var við. Við fórum að
hlæja af því þau voru svo langt í burtu og svo áhyggjufull en við
500