Tímarit Máls og menningar - 01.05.1988, Blaðsíða 42
Tímarit Máls og menningar
En annars var athyglin í góðu lagi, einbeitnin skein úr hverju
andliti og allt gekk snurðulaust fyrir sig eða alveg þar til komið var
að ljóðalestri Garðars, en einmitt þegar hann ætlaði að hefja lestur
sinn barst slík háreysti að ofan að Garðari fipaðist og varð svo
óstyrkur á taugum að öll vélrituðu blöðin skulfu í höndum hans og
það var ekki fyrr en hann sá að ég stóð upp til að kanna málin að
hann treysti sér til að hefja lestur.
Eg heyrði því aðeins upphafslínurnar,
Stúlkan á færibandinu er innhverf
einsog stoppistöð í framan,
hugur minn . . .
en var svo á leiðinni upp stigann og stóð á ganginum við útidyrnar.
Þar voru fimm stelpur um tvítugt, uppábúnar með andlitsfarða, og
með þeim þrír sjómenn. Einn þeirra var að fá sér sjúss en hinir tveir
héldu á fullum kassa af Vodka.
Eg reyndi að vera kurteis en sagði samt einsog var að hér væri
hvorki dansleikur né samkvæmi heldur færu fram stjórnmála-
umræður en nú stæði yfir ljóðalestur. „Og er það ekki nógu gott í
kjaftinn á okkur?“ sagði einn sjómannanna og horfði hvasst á mig.
Allt í einu leið mér einsog teprulegum smáborgara. „Jú, jú, ég hélt
bara . . .“ en þá voru sjómennirnir lagðir af stað niður stigann.
A eftir þeim gengu stelpurnar.
Svo ég.
Það glamraði í Vodkaflöskunum þegar þeir gengu í salinn. Menn
litu hver á annan og sumir hristu höfuðin. Garðar flýtti sér að ljúka
lestrinum. I síðasta ljóðinu líkti hann lífinu við fiskflak sem að lok-
um hafnar í snyrtilegum kassa og fékk gott klapp áður en Siggi sté í
pontu og sannaði eina ferðina enn hvílíkur afbragðs ræðumaður
hann er.
Fyrst svipti hann hulunni af svívirðileik hinnar smáborgaralegu
hentistefnu umbótaflokkanna, lýsti þjónslund þeirra og undanláts-
semi við stéttarhagsmuni auðvaldsins og reif svo í sig og tætti niður
alla bitlingasnatana, þingpalladindlana og metorðastritarana sem
hreiðrað hafa um sig í verkalýðshreyfingunni og hvað eftir annað
afhjúpað getuleysi sitt.
176