Tímarit Máls og menningar - 01.09.1997, Blaðsíða 42
SIGRlÐUR ÞORGEIRSDÓTTIR
brjótast út úr viðjum hefðbundinnar frumspeki vegna þess að kenning hans
byggir á frumsannindum um eðli gervallrar tilverunnar og felur þar með í
sér heilsteypta heimsmynd.
Ef við samþykkjum túlkun Heideggers er heimspeki Nietzsches um vilj-
ann, samanborið við yfirskilvitleg eða „guðdómleg sannindi“ platónsku
frumspekinnar, afhelguð eða veraldleg frumspeki sem er skilyrt af endan-
leika mannlegrar tilveru og hugsunar.8 Heideggur telur aftur á móti sína
eigin heimspeki, sem hann kallaði „grundvallarverufræði“, vera upphaf
nýrrar hugsunar eftir endalok hefðbundinnar frumspeki, sem var að hans
mati ófær um að ígrunda veruna sem grundvöll tilveru mannsins.9
Eftir að hinar viðamiklu rannsóknir Heideggers á heimspeki Nietzsches
komu út árið 1961 hafa túlkendur séð sig knúna til að taka afstöðu til þess
hvort beri að líta á meginkenningar Nietzsches sem frumspeki. Þrátt fyrir
tilraun sína til að lýsa veru mannsins í heimi hringrásar viljaferla leitast
Nietzsche við að grafa undan kerfisbundinni hugsun af frumspekilegum
toga. Hvernig má túlka hinn afóríska og brotkennda heimspekitexta
Nietzsches sem einkennist af andófi gegn æðstu lögmálum og kerfisbundnu
heildarsamhengi tilverunnar sem heildstæða heimspeki í anda hefðbund-
innar frumspeki, eins og Heidegger gerir? Jacques Derrida hefur andmælt
túlkun Heideggers á Nietzsche sem síðasta frumspekingnum. Að mati Derr-
idas sprengir heimspeki Nietzsches af sér höft frumspekinnar og opnar
þannig nýjar og ókannaðar leiðir fyrir hugsunina. Derrida, sem þróar af-
byggingu sína á hefðbundinni ffumspekilegri hugsun á grundvelli gagnrýni
Nietzsches, telur verufræði Heideggers aftur á móti mun bundnari frum-
spekihefðinni en heimspeki Nietzsches.
I eftirfarandi umfjöllun er ætlunin að huga nánar að sannleikskenningu
Nietzsches með hliðsjón af hinum andstæðu túlkunum Heideggers og
Derridas. Staðhæfingar Nietzsches um sannleika eru mótsagnakenndar og
gefa því, a.m.k. við fyrstu sýn, tilefni til jafn andstæðra túlkana og birtast í
afstöðu Heideggers og Derridas. Túlkun Heideggers er studd af fullyrð-
ingum Nietzsches um sannleika helstu kenninga sinna. Nietzsche skilgreinir
t.d. kenninguna um eilífa endurkomu hins sama, sem spámaðurinn Zara-
þústra boðar, sem hinn „erfiðasta sannleika“.10 Á öðrum stöðum í verki sínu
hafnar hann hins vegar alfarið algildi sannleikans og segir samtímann ein-
kennast af tómhyggju eftir hrun æðstu siðferðisgilda og sannleiksviðmiða.
Tómhyggjan merkir að ekkert sé satt, allt sé leyfilegt. Túlkun Derridas gengur
út frá slíkum fullyrðingum um afstæði sannleikans.
En áður en lengra er haldið er þarft að spyrja hvaða augum beri að líta á
sjálfar mótsagnirnar í heimspeki Nietzsches. Nietzsche er þekktur fyrir að
vera heimspekingur mótsagna, en hinar ólíku túlkanir á heimspeki hans bera
40
TMM 1997:3