Tímarit Máls og menningar - 01.03.1998, Qupperneq 16
HANNES PÉTURSSON
eitthvað eftir Hertz. Hann var formsnillingur, og ættu þeir sem leita að
fyrirmyndum ýmissa bragarhátta í verkum íslenzkra skálda á 19. öld að
glugga í rit hans. Til dæmis er hátturinn á ljóði Steingríms Thorsteinssonar
í dalnum sá sami og á ljóði eftir Hertz úr Gamle melodier („Jeg gik mig ud
en Sommerdag at höre“), og íyrr hafði Jón Thoroddsen ort Draum undir
hætti sem kemur fyrir í einu þekktasta leikriti Henriks Hertz, Svend Dyrings
Hus (sömdu 1836, „Hr. Peder kasted’ Runer over Spange“). En hvernig sem
í þessu kann nú að liggja mun öruggt, að íslenzk skáld á seinni tímum hafi
oftast nær fundið sér nýja bragarhætti í bókmenntum Norðurlandamanna,
ekki þurft lengra að leita. Mikill höfundur fullyrti, hef ég heyrt, að Jónas
Hallgrímsson kynni ítölsku með sérstökum ágætum, hefði lesið Dante,
Petrarca og fleiri menn; rökin voru þau, að hann orti terzínur, stönzur og
sonnettur. Það gleymdist alveg, að þeir bragarhættir blöstu við Jónasi í
meðförum skandínavískra höfuðskálda.
Af leikritum Henriks Hertz varð eitt víðfrægast: langur, ljóðrænn einþátt-
ungur í bundnu máli, Kong Renés Datter. Verkinu er fúndinn staður í
Suður-Frakklandi (Provence) á miðri 15. öld, þegar enn voru riddaratímar.
Þar segir einkum frá ungri stúlku sem er blind, en öðlast að lokum heila sjón.
I rómuðu ritgerðasafni, Gudernes Tungemaal (1911), hlóð Hans Brix á
leikritið lofi þess eðlis sem aðeins hlotnast snilldarverkum, og svipað hafði
Georg Brandes gert í ritsmíð um Hertz árið 1868.
Kong Renés Datter var frumflutt í Konunglega leikhúsinu í Kaupmanna-
höfn 5. apríl 1845, en gefið út tvívegis það ár og birtist síðan aftur og aftur á
prenti í Danmörku næstu áratugi (10. prentun 1914). Verkið hóf þegar
sigurför um Evrópulönd og Norður-Ameríku. Einnig nýtti Tsjækovskí sér
texta þess í óperu sem ber nafn aðalpersónunnar, Jolanthe.
Drepið er hér á þetta verk Henriks Hertz framar öðru til mótvægis því,
hve Gröndal fer ljótum orðum um höfundinn í ljóðabréfi sínu 1860, en líka
til þess að minna á að Hertz skóp fleira sem íslendingum kemur við en
sviðspersónuna Skalholt: KongRenésDatter hreif nefhilega Jónas Hallgríms-
son umfram önnur skáldverk danskrar tungu. í síðasta sendibréfi sínu (ef
eklci eru taldar tvær stuttar orðsendingar), dagsettu í Kaupmannahöfn 21.
apríl 1845, skrifar hann Þórði Jónassyni yfirdómara í Reykjavík:
„„Kong Renés Datter“ eftir Hertz verð ég að senda þér með einhvurju móti
undir eins og það kver kemur úr prentun; þessi leikur (romantisk drama i 1
akt) er það yndislegasta sem ég veit til hafi oltið upp úr Dönum.“7
Jónas var semsé í Konunglega leikhúsinu á einni fyrstu sýningu einþátt-
ungsins nýja eftir Hertz. Hins vegar dó hann nokkrum vikum síðar, og því
kom aldrei til þess að hann sendi Þórði vini sínum leikritið nýprentað.
Auðskilið er eftir lestur skáldritsins fræga um hina skapandi innri sjón,
6
TMM 1998:1