Dagblaðið Vísir - DV - 23.04.2010, Blaðsíða 30
30 FÖSTUDAGUR 23. apríl 2010
Gosið í Eyjafjallajökli er tekið að ró-
ast, sem betur fer fyrir íbúa á svæð-
inu undir Eyjafjöllum því þar hafa síð-
ustu dagar reynt verulega á taugarnar.
Fólk hefur oftar en einu sinni þurft
að flýja heimili sín skyndilega vegna
eldgoss og flóðahættu og enginn veit
hvað morgundagurinn ber í skauti
sér. Öskufall og öskubyljir valda því að
gjóskan leggst yfir allt og smýgur alls
staðar inn, fólk hefur ekki undan við
að sópa heimili sín og verður jafnvel
að bera súrefnisgrímur heima hjá sér
og þar sem öskulagið er þykkast sefur
fólk með grímu fyrir andlitinu. Í þessu
ástandi er erfitt að halda geðheilsunni
í lagi og því lengur sem ástandið varir
því erfiðara verður að takast á við það.
Þolið fer þverrandi með hverjum deg-
inum, því þótt gosið sé tekið að róast í
bili er skaðinn skeður og engin lausn
er í sjónmáli. Túnin eru ónýt og skepn-
urnar eru komnar að því að bera. Hvað
tekur við ef ekki verður hægt að hleypa
fénu út á tún eftir sauðburð? Er betra
að slátra kindunum áður en þær bera
eða nýfæddum lömbum? Þetta er á
meðal þess sem bændur undir Eyja-
fjöllum velta fyrir sér þessa dagana, en
flestir þeirra hafa komið sér upp ein-
hvers konar útgönguleið í huganum,
þó að þeir þori varla annað en að taka
einn dag í einu.
Með byssuna klára
Á ferð okkar um svæðið komum við
fyrst að bænum Fit, þar sem Ólaf-
ur Baldursson býr ásamt konu sinni
Guðlaugu Þorsteinsdóttur, dóttur Sig-
ríði Ólafsdóttur, eiginmanni hennar
og tveggja ára tvíburum þeirra, þeim
Gísla Jens og Baldri Bjarka. Hér er
varla hægt að sjá nokkur merki um
gjósku eða öskufall en íbúarnir á bæn-
um eru í flóðahættu. „Þar sem við
búum í farveginum myndi það ná til
okkar. Þannig að við þurftum að rýma
bæinn og flýja upp á Heimaland, sem
var svolítið skrýtið því það er líka í
flóðahættu.“
Ólafur var staddur úti við Markar-
fljótið þegar flóðið skall á. „Það mun-
aði bara hársbreidd að flóðið hefði
breitt úr sér. Ef það gerist verðum við
bara að forða okkur og hlaupa upp í
hlíð,“ segir hann og bendir upp í fjall.
„Reyna að komast eins hátt og við get-
um og setjast á stein.”
Annars segir hann að það sé lítið
hægt að gera. „Við erum bara bundin
hér eins og hinar beljurnar. Við kom-
umst ekkert í burtu þar sem við þurf-
um að mjólka tvisvar á dag. Það eru öll
fjós full og ekkert hægt að flytja svona
bú þó að það telji ekki nema 100 naut-
gripi og 150 kindur. En ef eitthvað ger-
ist getum við ekki spáð í dýrin, en ég
er klár með byssu og skot ef á þarf að
halda. Þau þurfa ekki að þjást lengi.“
Sigríður ber kaffi og köku á borð,
lagköku auðvitað. Hún segir að þetta
sé ekki eins slæmt hjá þeim og mörg-
um sveitungum þeirra, því þau hafi
nánast sloppið við öskukófið. Ólafur
grípur orðið: „Ég sá öskuskýið nálg-
ast okkur en við erum svo heppin að
það liggur vindstrengur hér sem held-
ur á móti og snýr vindáttinni hér rétt
hjá. En ég hef lengi fundið fyrir skjálft-
um og heyrt í drunum þannig að þetta
kom óvænt en samt ekki, það var sagt
að jökullinn væri óvirkur en svo má
búast við öllu á Íslandi.“
Fuglarnir sækja inn í fjárhúsin
Við höldum að næsta bæ en á Ásólfs-
skála hittum við fyrir Sigurð G. Ott-
ósson sem er fæddur og uppalin hér
í sveitinni. „Síðustu dagar hafa verið
mjög óvenjulegir. Ég ólst upp við það
að Eyjafjallajökull væri kulnað eld-
fjall og var talin trú um að það myndi
ekki gjósa aftur þannig að ég var grun-
laus þegar þetta gos hófst.“ Sjálfur þarf
hann ekki að sjá fyrir búi því dóttir
hans og tengdasonur keyptu af hon-
um búskapinn fyrir nokkrum árum
og hann vinnur á Byggðasafninu að
Skógum, sem er lokað þessa dagana.
Tímann reynir hann að nota til þess að
sinna áhugamálinu og gera upp gaml-
ar vélar, þó að hann hafi varla undan
við að sópa rykinu út úr heimilinu. „Í
gær vorum við heilan dag að þrífa allt
hátt og lágt og nú er askan strax farin
að smjúga inn aftur,“ segir hann þar
sem hann stendur í forstofunni þar
sem þykkt öskulag liggur á gólfinu.
„Ég man eftir Heklugosinu árið 1947.
Þá kom æði mikil aska en í vikurformi
þannig að það var allt öðruvísi. Eftir
það voru öskuskaflar hér víða um sveit
langt fram yfir 1970 en núna er askan
svo fín að hún smýgur alls staðar inn
og fyllir öll hús. Það er erfitt að verjast
því.“
Meira að segja fuglarnir eiga erfitt
með að verjast því og þegar verst var
reyndu þeir að flýja inn í fjárhúsið þó
að rykið leggist þar á eins og annars
staðar þannig að kindurnar eru orðn-
ar öskugráar á lit en ekki hvítar eins og
þær eiga að sér að vera. Þar réðst ein
rollan á krumma, sem neitaði þó að
fara aftur út í myrkrið.
Bundinn yfir skepnunum
Aðstæðurnar hjá Ármanni Fannari
Magnússyni á Hrútafelli eru þó öllu
verri. Þar var öskufallið mjög mikið
auk þess sem ágangur fjölmiðla hef-
ur tekið á taugarnar, en hann býr við
þjóðveginn og er því í alfaraleið. „Ég
er orðinn mjög þreyttur. Ég sef á nótt-
unni en vakna óþarflega snemma. Ég
hef náttúrlega aldrei lent í því áður að
vera undir stöðugu álagi.“
Um tíuleytið á föstudagskvöldinu
sá hann hvernig askan lagðist í ról-
egheitunum yfir allt. „Ég sá þetta síga
rólega til mín og af því að það var svo
stillt settist gjóskan bara á jörðina og lá
þar yfir eins og svört hula. Svo varð allt
svart. Það er ekki góð tilfinning, en ég
reyni að hugsa ekki um þetta. Hugsa
bara um skepnurnar en um leið og
ég slaka á hellist þetta yfir mig,“ segir
hann með tárvot augu.
Verst er að askan smýgur alls staðar
inn þar sem einhverjar glufur eru. „Ég
bjóst aldrei við því að þetta yrði svona
svakalegt, ég gerði mér ekki grein fyrir
því hversu svart þetta gæti orðið. Þetta
er algjört áfall.“
Hann á fimm börn með konunni
sinni en hún fór suður til Reykjavík-
ur með öll börnin nema elsta soninn,
Guðna sem er sextán ára og varð eftir
til þess að hjálpa pabba sínum. „Þetta
eru engar aðstæður fyrir börn. En hver
á að sjá um skepnurnar ef ég fer?“ spyr
Ármann Fannar. „Dýrin voru samt fljót
HARMI SLEGNIR ÍBÚAR
Þó að gosið sé tekið að róast sitja bændur
uppi með afleiðingarnar og eru margir illa
haldnir af áhyggjum og streitu. Ingibjörg
Dögg Kjartansdóttir blaðamaður og Ró-
bert Reynisson ljósmyndari heimsóttu
landið í öskunni.
INGIBJÖRG DÖGG KJARTANSDÓTTIR
blaðamaður skrifar: ingibjorg@dv.is
Ég bjóst aldrei við því að þetta
yrði svona svakalegt.
Óvissan verst Hónin Guðni Úlfar Ingólfs-
son og Magðalena Jónsdóttir óttast að
gosið geti varað í allt að tvö ár með hléum.
Nýtt land Í hverju fótspori sökk maður
niður um allt að fimm sentímetra öskulag.
Hvenær skal slátra? Guðni Rúnar
Þórisson á Raufarfelli veltir því fyrir sér
hvort það sé skárra að slátra kindum
þegar þær eru komnar að því að bera eða
nýfæddum lömbum.
MYNDIR RÓBERT REYNISSON
ELDGOSIÐ