Dagblaðið Vísir - DV - 05.11.2010, Page 44

Dagblaðið Vísir - DV - 05.11.2010, Page 44
44 SAKAMÁL UMSJÓN: KOLBEINN ÞORSTEINSSON kolbeinn@dv.is 5. nóvember 2010 FÖSTUDAGUR BANVÆNN kökubiti Sem sjúklingur á geðdeildinni í Wat-ford á Englandi gat hin tuttugu og sex ára Caroline Ansell ekki notið margs sem lífið hafði upp á að bjóða. Því taldi hún sig himin höndum hafa tekið þegar henni barst óvæntur pakki, sem við athugun hafði að geyma bragðgóða köku. Caroline gæddi sér á hluta kökunnar, en leyfði öðrum vistmönnum að njóta góð- gætisins með henni daginn eftir. Skömmu síðar kenndu allir þeir sem bragðað höfðu á kökunni sér meins. Tveir vina Caroline urðu alvarlega veikir, fengu heiftarlega kvið- verki, og Caroline, sem hafði borðað mest af kökunni var liðið lík fjórum dögum síðar. Þetta gerðist í mars, 1899, og þegar þar var komið sögu hafði Caroline dvalið á hæl- inu um fjögurra ára skeið. Hún var eitt fimm barna foreldra sinna, herra og frú James Ans- ell. Ein systra hennar hafði dáið sjö árum fyrr og því var ekki að undra að foreldrar hennar tækju nærri sér missi annarrar dóttur. Þriðja systirin, Mary, bjó og starfaði í Great Coram- stræti í Lundúnum sem þerna hjá Maloney- fjölskyldunni. Ekki fyrsta morðtilraunin Skömmu síðar var talið víst að eitrað hefði verið fyrir Caroline, og sennilega ekki í fyrsta skipti. Skömmu fyrir dauða hennar hafði hún fengið sent te og sykur, en teið hafði verið undarlegt á bragðið og því hafði verið fleygt ásamt sykrinum sem hafði undarlega áferð. Til að gera þetta allt undarlegra þá hafði henni borist bréf, sem virtist vera frá frænku hennar, Harriett Parish, þar sem sagði að for- eldrar Caroline væru báðir látnir. Caroline hafði skrifað svarbréf, lýst sorg sinni og beðið um svartan borða svo hún gæti syrgt. En Ansell-hjónin voru bæði við hesta- heilsu og Parish þvertók fyrir að hafa sent bréfið til Caroline. Tveimur dögum eftir dauða Caroline komu móðir hennar og Mary á hælið og var móðurinni tjáð að nauðsynlegt væri að kryfja líkið til að staðfesta banamein Caroline. Þetta var eitthvað sem mæðgurnar áttu ekki von á og rétt áður en þær yfirgáfu hælið spurði Mary einn starfsmann hælisins hvernig hún gæti orðið sér út um dánarvottorðið. Hann gaf henni leiðbeiningar þar að lútandi en eðli málsins samkvæmt var ekkert dánarvottorð að hafa fyrr en að lokinni krufningu. Tvöföld líftrygging Caroline hafði verið myrt með fosfór og eðli- lega beindist grunurinn að kökunni sem hafði verið send til hennar. Við leit fundust umbúðirnar utan af kökunni og á þeim var handskrifað nafn sendandans. Wood, yfirlögregluþjónn í Watford, beindi sjónum sínum að Mary og í ljós kom að hún hafði líftryggt systur einhverju fyrr. Trygg- ingarsalinn hafði haft samband við Ma- loney-fjölskylduna vegna málsins og Mary hafði gefið þá skýringu að ef systir hennar dæi þá gæti hún með tryggingarfénu í það minnsta séð henni fyrir sómasamlegri útför. Til að geta líftryggt Caroline hafði Mary sagt að Caroline ynni á hælinu, því annars hefði henni verið neitað um trygginguna. Mary líftryggði Caroline fyrir rúmlega 22 sterlingspund, ef hún lifði í ár, en fyrir rúm- lega 11 sterlingspund ef hún lifði í hálft ár. Á þeim tíma var um álitlega upphæð að ræða. Líftrygginguna hafði hún tekið í septem- ber árið áður, sem gerði henni kleyft að inn- heimta síðari upphæðina. Rottueitur, en engar rottur Wood þurfti nauðsynlega að komast að ástæðum þess að Mary vildi systur sína feiga og það gerði hann. Mary átti ástmann sem hún vildi giftast, en skotsilfur var af skorn- um skammti og hafði hann sagt að best væri að bíða þar til þau hefðu safnað vænum sjóð. Mary hugnaðist ekki biðin og með því að myrða systur sína og áskotnast þannig fé ætlaði hún að þrýsta á unnustann að ganga í það heilaga. En þegar ljóst varð að Caroline hafði verið myrt var Mary komin í öngstræti. En fleiri sönnunargögn renndu stoðum und- ir sannfæringu Woods; Mary hafði keypt fosfór í verslun skammt frá heimili hennar. Hún sagði fosfórinn vera til að drepa rottur á heimili vinnuveitanda hennar, en Maloney sagði að þar væri engar rottur að finna. Undarlegt te, eitruð kaka, dularfullt bréf, nýleg og sviksamleg líftrygging og fosfórkaup – sönnunargögnin gegn Mary hrönnuðust upp. En þegar Wood ákærði hana fyrir morð- ið á systur sinni svaraði hún: „Ég veit ekkert um það. Ég er jafn saklaus stúlka og þegar ég fæddist.“ Sönnunargögnum átti eftir að fjölga því jólakort sem Mary hafði skrifað fannst og auðséð að þar var um sömu rithönd að ræða og var á bréfinu og umbúðunum utan af kökunni. Talið var að tilgangurinn með bréfinu hafi verið að blekkja yfirstjórn hæl- isins; þegar Caroline dæi myndi yfirstjórnin halda að foreldrar hennar væru dánir og þar af leiðandi yrði ekkert bréf sent til þeirra og líkur á rannsókn yrðu hverfandi. Dauðadómurinn ekki mildaður Réttað var yfir Mary Ansell í Hertford og sannanir saksóknar gegn Mary voru svo yfirgnæfandi að það tók aðeins hálfan dag að komast að niðurstöðu. Mary var sak- felld fyrir morðið á systur sinni og dæmd til dauða. Reyndar hélt enginn að dómnum yrði fullnægt. Flestir ályktuðu að hann væri forms atriði og að innanríkisráðherrann, Sir Matthew Ridley, myndi milda hann. Það gerði hann ekki og málið var tekið upp í þing- inu og segir sagan að yfir 100 þingmenn hafi skrifað undir beiðni um mildun dómsins. Innanríkisráðherra var upplýstur um að báð- ar systur Mary hefðu verið geðveikar og að frænka þeirra í móðurætt hefði dáið á hæli og að Mary bæri einnig sterk merki geðveilu. Einn Lundúnabúi safnaði 1.000 undirskrift- um á lista þar sem farið var fram á að dóm- urinn yrði mildaður. Jafnvel Viktoría drottn- ing fór ekki varhluta af málinu. En allt kom fyrir ekki. Henging á heiðskírum morgni Miðvikudagurinn 19. júlí, 1899, rann upp fagur og sólríkur. Mikill fjöldi hafði safnast saman fyrir utan Skt. Albans-fangelsið rétt fyrir klukkan átta að morgni – hinir forvitnu, hinir reiðu og aðrir. Allir biðu í hljóðri þögn á meðan böð- ullinn, innan fangelsisveggjanna, náði í Mary Ansell. Hendur hennar voru fjötrað- ar og gjörsamlega yfirbuguð var hún leidd hinn stutta spöl að gálganum, rétt innan fangelsis hliðsins. Þar sem hún gekk að gálganum endur- tók hún í sífellu orð prestsins: „Guð fyrirgefi þessum aumkunarverða syndara“. Hettu var smeygt yfir höfuð Mary, ólin um mitti hennar var hert, tekið var í hand- fangið og jarðvist Mary Ansell var lokið. Í kjölfar aftökunnar voru líkamsleifar hennar grafnar innan veggja Skt. Albans- fangelsisins, en árið 1931 voru þær fluttar í kirkjugarðinn í Skt. Albans. Undarlegt te, eitruð kaka, dularfullt bréf, nýleg og sviksamleg líftrygg- ing og fosfórkaup – sönnun- argögnin gegn Mary hrönn- uðust upp. Mary Ansell vildi giftast sem fyrst og deildi ekki þolinmæði unnusta síns sem vildi bíða þar til hagur þeirra vænkaðist. Því brá hún á það ráð að líf- tryggja systur sína, sem var vistuð á hæli, með það fyrir augum að komast yfir skjótfengið fé. HENGING MARY ANSELL Óþolinmæði varð til þess að Mary myrti systur sína.

x

Dagblaðið Vísir - DV

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.