Són - 01.01.2009, Blaðsíða 29
Á HNOTSKÓGI 29
kvæði. Augljóslega eru kvæðin þrjú hugmyndalega tengd; þau eru
rammheiðin og fjalla um skyld efni, helstu goðsögur í heiðnum sið,
um sköpun heims, örlög hans og guðanna og þarmeð mannkyns. Hin
heiðna heimssýn býr í þeim öllum; þau geyma hugmyndaheim sem
er að hverfa á tíð höfundar og hann hefur viljað varðveita. Þeir
Sigurður Nordal og Helgi Hálfdanarson og margir fleiri eru sammála
um að Völuspá hafi verið sett saman á mótum heiðins siðar og
kristni, þ.e. nálægt árinu 1000. Og þá má augljóst vera að frumkvæðin
þrjú gætu verið mun eldri.
Með könnun sinni og niðurstöðum vann Helgi Hálfdanarson verk
sem allir aðrir höfðu talið ógerlegt – að grafast fyrir um upprunalega
gerð Völuspár. Það verk vann hann af kunnáttu, innsæi og hug-
kvæmni og einstakri þekkingu á skáldskaparmálum. Undir bókarlok
bendir hann á að í reynd hafi hann hvergi hróflað við handritunum
að öðru leyti en því að færa til og endurraða brotum textans sem
öllum beri saman um að ekki verði hjá komist, og að hann leggi mun
minna til af leiðréttingum en útgefendur hafi yfirleitt látið sér nægja.
Þeir sem lesa Maddömuna með kýrhausinn hljóta að furða sig á því að
enn skuli menn semja fræðirit og gefa út Eddukvæði án þess að minn-
ast á þetta rit Helga Hálfdanarsonar um Völuspá. Allir útgefendur
Völuspár hafa vissulega leitast við að skýra orð og inntak kvæðisins.
En „tilfærsla brotanna“, þ.e. endurskipulagning kvæðisins, er mikil-
vægt og vandasamt viðfangsefni sem Helgi einn hefur til lykta leitt og
það með athyglisverðum árangri. Hann greiddi úr óreiðu kvæðisins.
Fyrir honum vakti að leysa kvæðið úr álögum eins og hann orðar það
með sínum myndræna stíl í eftirmála Maddömunnar:32
Nú er fríð mær og tigin sögð úr álögum leyst eftir langa vist í
tröllahöndum. Var gengið á hólm við forynjur þær, sem um
hana slógu seiðhring sínum, ferlegir hausar sniðnir af bol og á
eld varpað. Skal þeim tíðindum svo vel fagnað sem vert er.
Málrækt og þýðingar
Helgi Hálfdanarson skrifaði fjölda blaðagreina þar sem hann tjáði sig
um margskonar menningarmálefni; má þar nefna borgarskipulag,
skólamál, leikhúsmál, bókmenntir, bókmenntaverðlaun, tónlist, nátt-
úruvernd, skógrækt og uppeldisáhrif sjónvarps. En sá málaflokkur sem
32 Maddaman með kýrhausinn, 2. útg., bls. 104.