Són - 01.01.2009, Blaðsíða 142
HELGI SKÚLI KJARTANSSON142
er þar kominn með goðanum bróður sínum. Og Sturla stendur á
sama hátt við hliðina á sínum fyrirliða, þessum „karli“ sem „staddur
er hjá“ honum.
Nærtækast (og algengast, að ég hygg) er að skilja „karl“ þennan og
„andskotann“ sem sömu persónu, þ.e. kölska. Hann „þrumir undir
bægi“ (sem var reglulegt þágufall af bógur í merkingunni „öxl, upp-
handleggur“10) goðans, Sturlu. Sem sagt „býr honum í brjósti“ eða
eitthvað slíkt. Þannig er hann ekki sýnilegur viðstöddum en þó í raun
„staddur hjá Sturlu“ rétt eins og Guðmundur dýri hjá Jóni. Þannig
afsakar skáldið mannasiði Dalagoðans, en með þeirri svívirðilegustu
afsökun sem hugsast getur: að hann láti stjórnast af hinum vonda
sjálfum.
Sú skýring er til líka að „karlinn“ sé Óðinn fremur en Satan sjálf-
ur: „Karl [or Óðinn / Satan] stands next to Sturla …“, og er ádeila Jóns
skálds þá tengd þeirri ásökun, sem Sturla mætir strax í næsta kafla
sögunnar, að Óðinn sé sá „er þú vilt líkastur vera“.11
Raunar er ekki víst að áheyrendur vísunnar hafi gert afskaplega
mikinn mun á kölska og Óðni samkvæmt Ásatrúnni eins og kristnir
Íslendingar voru farnir að túlka hana. En sú túlkun gat fundið sér
þrjá nokkuð ólíka farvegi.
Samkvæmt þeim fyrsta var heiðnin það skásta sem fólki bauðst
fyrir tíð kristninnar. Góður heiðingi var því guðrækinn á sinn gallaða
hátt, eins og Ingólfur landnámsmaður, en eins og sannaðist á Hjörleifi
fóstbróður hans var varhugavert að vanrækja trú sína, þá eins og
síðar.
Í annan stað mátti líta á heiðnina sem eins konar spegilmynd réttr-
ar trúar, hofin t.d. lík kirkjum með altari, helgimyndum og föstum
tekjum, blóði fórnardýra stökkt á söfnuðinn líkt og vígðu vatni
10 Út frá nútímaframburði væri freistandi að lesa hér saman „hjá Sturlu, … goða
bægi“. Sturla væri „goða bægir“ af því hann amast við goðorðsmönnum, í svipinn
Guðmundi dýra en hafði líka átt í frægum útistöðum við nágrannagoða sína á
Vesturlandi. En í máli Jóns skálds voru tvö ólík æ; gerandanafnið bægir (sem er til
í skáldskap) hefði verið skothent á móti slœgur en bragarháttur krefst hér aðal-
hendingar og þá kröfu uppfyllir þágufallið bœgi af bógur. Handrit Sturlungu eru
of ung til að rithátt þeirra sé að marka um þessa aðgreiningu en bragurinn sker úr.
11 Guðrún Nordal, Tools of Literacy. The Role of Skaldic Verse in Icelandic Textual Culture of
the Twelfth and Thirteenth Centuries (Toronto, Univ. of T. Press, 2001), bls. 152. Í
„karlinum“ sér hún „clearly a cloaked and ingenious reference to the pagan
Óðinn“. Hún skilur hins vegar „andskotann“ í 3. vísuorði sem kölska, „the devil“,
en til greina kæmi, ef skáldið vísar til Óðins á annað borð, að hann sé líka kallaður
andskoti.