Són - 01.01.2009, Blaðsíða 36
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON OG EYSTEINN ÞORVALDSSON36
hanness Pilikians sem setti Lé konung á svið í þýðingu Helga í Þjóð-
leikhúsinu 1977. Mikil umræða varð um þessa sýningu og tók Helgi
þátt í skoðanaskiptunum, enda ekki alls kostar sáttur við áherslur
leikstjórans. Þessi fræga uppfærsla og allt í kringum hana er eiginlega
sérstakt rannsóknarefni: Það var sannarlega ekki alltaf logn í kringum
Helga, þótt hann hafi verið afburða kurteis og hófstilltur maður.
Hvað sem líður sviðsetningu á þýðingu Helga á Lé konungi (eða
öðrum verkum) er þess að geta að sem bókmenntaverk er hún spenn-
andi og hröð, í senn læsileg og æsileg; frá upphafi er allt á heljarþröm
og texti Helga er á einhvern furðulegan hátt skýr og skjótstígur þótt
hann sé krökkur af sturlun svo vart sér út úr augum – enda eru þau
stungin úr einni aðalpersónunni. Semsé bókmenntaverk til lestrar
ekki síður en sviðsverk. Þetta er athyglisvert, sé haft í huga að Helgi
hóf að þýða Shakespeare sem leiktexta, og þá sérstaklega fyrir upp-
færslur í Þjóðleikhúsinu. Þeir sem þetta rita áttu eftirminnilegar sam-
ræður við Helga um þýðingar leiktexta. Hann taldi að þýðing texta
sem ætlaður væri leiksviði væri ekki í nokkurri eðlisbundinni and-
stæðu við þýðingu textans sem bókmenntaverks. Leikstjóri og leikar-
ar túlka textann að sínum hætti og hugsanlega breytir þýðandi verki
sínu að einhverju leyti með hliðsjón af undirbúningi leikaranna. En
Helgi leit svo á að textinn sem leikararnir flytja gæti einnig staðið
jafngildur sem texti er lesendur nema af bók sér til ánægju – sem er
annarskonar reynsla en að sitja í leikhúsi, þótt vissulega setji lesendur
verkið einnig á svið í huga sér. Og þetta taldi hann eiga eins við um
Shakespeare og önnur leikskáld, þótt líklegt megi telja að Shakespeare
hafi eingöngu samið verk sín með leikflutning í huga en ekki lestrar-
nautn. En það er nautn að lesa leikrit Shakespeares, hvort heldur
frumtextann eða þýðingar Helga.
Á Íslandi er raunar fremur lítil hefð fyrir leikritum sem bók-
menntaefni til lestrar, en leikrit Shakespeares eru meðal þess bók-
menntaefnis sem mest og víðast er lesið í heiminum. Auk Rómeó og
Júlíu ber þar hæst harmleikinn um Hamlet Danaprins og víst má
hann teljast þekktasta verk skáldsins og það sem mest hefur verið
hampað, einkum vegna túlkunar á hinni miklu tilvistarglímu titil-
persónunnar, glímu sem mörgum hefur þótt sérlega nútímaleg, þótt
fest sé á blað fyrir fjórum öldum, og ljóst er að frá Hamlet liggja ótal
þræðir um nútímabókmenntir Vesturlanda. Hamlet virðist ekki vera
meðal þeirra verka sem Helgi gerði snemma atlögu að; þýðing hans
birtist ekki á bók fyrr en 1970 (og þá með Lé konungi), og hún var ekki
sett á svið fyrr en tæpum tveimur áratugum síðar. Fyrir var þýðing