Són - 01.01.2009, Blaðsíða 133
Guðrún Þórðardóttir
Eftirmæli eftir Hjálmar
hugumstóra
Skýringar Braga Halldórssonar
Guðrún Þórðardóttir var frá Gróustöðum í Geiradal. Ort fyrir 1852
(eftir Lbs. 2402, 8vo og Lbs. 2129, 4to með stuðningi úr Lbs. 1881, 8vo
og Lbs. 3472, 8vo)1
1 Frá því glósa fer eg rétt
fornar greina sögur,
mundar ljósa mörkin nett
myndaði kvæðin fögur.
glósa: skrifa.
mundar (handar) mörk (skógur): kona.
2 Horfin vansa hýrust drós
hetju þráði bjarta,
ástar glansa lífsins ljós,
logaði glatt í hjarta.
drós: kona.
1 Heiti rímunnar er ekki hið sama í handritum. Í Lbs. 2402, 8vo er það „Eftirmæli eftir
Hjálmar hugumstóra“. Þessu heiti er haldið hér. Þetta handrit er elst og er í stórri
bók sem nefnist „Rímnabók og ýmsra kveðlingar, skrifað í hasti árið 1852 af Bjarna
Jóhannesarsyni.“ Ríman er aðeins 37 erindi í þessu handriti (vísur 24–30 vantar).
Texta þess er fylgt hér svo langt sem hann nær en fyllt upp í eyður með þremur
öðrum handritum. Hér er því óhjákvæmilegt að taka mið af fleiri handritum en les-
brigða úr öðrum handritum er ekki getið hér (þau má öll sjá í Fylgiriti MA-ritgerðar
minnar, BH).
Lbs. 2129, 4to nefnist „Safn af ljóðmælum ýmislegs efnis og eftir ýmsa höfunda.
Fimmta bindi, byrjað þann 10da janúar 1886 af Sigmundi Matthíasson [svo] á
Fjarðaröldu við Seyðisfjörð.“ Hér er ríman 44 erindi. Heiti rímunnar er hér
„Ingibjörg Ingvadóttir kveðið af Guðrúnu Þórðardóttur skáldkonu“.
Lbs. 1881, 8vo nefnist „Ljóðsafn ort af ýmsum. XII. bindi. Skrifað hefir Halldór
Jónsson 1895.“ Halldór frá Miðdalsgröf (1871–1912) skrifaði mörg stór handrit
með samtíningi eftir ýmis skáld. Hér er ríman greinilega hreinskrift eftir fleiri en
einu handriti (e.t.v. 2402 og 2129). Það sést m.a. af því að vísur 3, 35 og 44 eru á
lausum miða og stundum eru lesbrigði skrifuð fyrir ofan einstök orð. Vísur eru líka
stundum númeraðar eftir á þegar ljóst er að þær hafa verið fyrst skrifaðar í rangri
röð. Þetta handrit er nær samhljóða Lbs. 2129, 4to. Heiti rímunnar er hér „Hjálmar
og Ingibjörg“.
Lbs. 3472, 8vo er 1. bindi handrita Kára S. Sólmundarsonar (1877–1960) sem hann
skrifaði á árunum 1931–33. Þar nefnist ríman „Kviða Ingibjargar Ingvadóttur “.