Són - 01.01.2009, Blaðsíða 30
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON OG EYSTEINN ÞORVALDSSON30
segja má að hafi umfram allt annað átt hug og hjarta hans var íslenskt
mál, notkun íslenskrar tungu, varðveisla hennar, merking, blæbrigði og
nýbreytni í máli. Um málvernd og málrækt setti Helgi skýr markmið,
eins og í öðrum hugðarmálum. Í grein árið 1980 skrifar hann:33
Sá er tilgangur málræktar að gera orð tungunnar og sambönd
þeirra að sem greiðastri brú frá einum mannshuga til annars,
gera talað og ritað mál að sem nákvæmustum miðli þeirra er-
inda sem við eigum hvert við annað.
Til þess að málið megi sem bezt gegna því hlutverki er eink-
um tvennt mikilvægt: annars vegar sem mest fjölbreytni orða-
forðans, og hins vegar traust varðveizla merkinganna.
Nokkrum árum síðar skrifar hann ennfremur:34
Það sem öðru fremur varðar verndun tungunnar er varðveizla
beygingakerfis, setningagerðar, hljóðkerfis, og ekki síst varð-
veizla sjálfs orðaforðans og hefðbundinnar merkingar hvers
orðs. Ef merkingar orða fara að riðlast að ráði, gæti fátt orðið
fremur til þess að rjúfa tímasamfellu málsins, sem brýnast er að
vernda.
Í umræðum um íslenskt mál virtist Helgi stundum vera í hlutverki
málverndarmannsins sem fékk að heyra þau mótrök að tungumálið sé
félagslegur miðill samtímans, miðill sem taki stöðugum breytingum og
lítt dugi að halda bara traustataki um fortíðarmyndir hans. Vissulega
er það svo að lifandi málrækt er aldrei einvörðungu málvernd, enda
lætur Helgi einnig eftirfarandi orð falla í þessari sömu blaðagrein:
Að sjálfsögðu má ekki misskilja orðið málvernd á þann veg, að
málið eigi ekki að laga sig að nýjum þörfum á hverri tíð. Eðli-
legur og sífelldur vöxtur málsins er einmitt eitt hið mikilvægasta
viðfangsefni málverndar. Hitt er skaðlaust, að Íslendingar fyrri
alda gætu ekki umsvifalaust skilið orðin bíll og tölva, ef það
skyldi hvarfla að þeim að tína saman kjúkurnar og rísa úr gröf.
33 „Samheitabók“, Morgunblaðið, 16. apríl 1980. Margt af því sem Helgi Hálfdanarson
ritaði og rökræddi um íslenskt mál, m.a. tilvitnuð grein, var endurprentað í bók-
inni Skynsamleg orð og skætingur. Greinar um íslenzk mál, Sigfús Daðason tók saman,
Reykjavík: Ljóðhús 1985.
34 „Merkingar orðanna“, Morgunblaðið, 22. febrúar 1989.