Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2007, Page 48
46
Tímarit um menntarannsóknir, 4. árgangur 2007
segir Kennedy – og ekki loku fyrir það skotið
að hún opni þeim nýja heima og nýja möguleika
í starfi.
Ég tek undir þetta og vísa þá til eigin reynslu.
Fyrir allmörgum árum skrifaði ég grein í
Ný menntamál sem ég nefndi Raungreinar
– til hvers? (Hafþór Guðjónsson, 1991).
Þar greini ég frá athugunum sem ég gerði á
forhugmyndum nemenda minna um loft. Ég var
þá framhaldsskólakennari að kenna efnafræði
og hafði kynnst rannsóknum á forhugmyndum
barna eða „children’s preconceptions“ eins og
það var kallað í fræðibókum sem ég aflaði mér
(Driver, 1983; Driver, Guesne og Tiberghien,
1985; Osborne og Freyberg, 1985). Áður en ég
kynntist slíkum rannsóknum hafði ég lítið leitt
hugann að námi nemenda minna, hvernig þeir
hugsuðu eða hvernig þeir lærðu. Ég kenndi
einfaldlega mína efnafræði og lagði síðan fyrir
próf til að gá að því hvort nemendur hefðu
„náð þessu“ eins og maður orðaði það. Hvað
væri að gerast í kollinum á þeim áleit ég utan
minnar lögsögu. Hlutverk mitt var að koma
námsefninu til skila og hlutverk nemenda að
taka við því. Það var allt og sumt. Gengi það
illa var helst við nemendur að sakast, að þeir
væru annaðhvort ekki nógu gáfaðir eða ekki
nógu iðnir nema hvorttveggja væri.
Fræðibækurnar sem nú rak á fjörur mínar
sögðu aðra sögu af nemendum. Þeir eru ekki
viðtakendur heldur smiðir. Þeir taka ekki við
þekkingu heldur skapa hana. Þeir gera sér
hugmyndir og hugsanir úr þeim áreitum sem
þeir verða fyrir og í ljósi þeirrar þekkingar sem
þeir hafa áður skapað sér. Þegar við kennararnir
erum að útskýra hluti fyrir nemendum finnst
okkur sem við séum að færa þeim merkingu
og skilning á silfurfati. Það er misskilningur,
sögðu hin nýju fræði. Nemendur þiggja aldrei
af okkur merkingu og heldur ekki skilning.
Þeir verða að búa sér merkingu og skilning úr
því sem þeir heyra og sjá í tímum á grundvelli
þess sem þeir vita og skilja fyrir.
Og ég skildi að sú mynd sem hér var
gefin af nemendum var ekki ný af nálinni.
Rannsakendur höfðu leitað í smiðju Piaget
(1973). Á þriðja tug síðustu aldar tók Piaget
ítarleg viðtöl við börn og komst þá að raun um
að þau höfðu gert sér flóknar hugmyndir um alls
kyns fyrirbæri löngu áður en þau fengu kennslu
um þau. Á grundvelli þessara niðurstaðna og
með hliðsjón af þekkingarfræði Immanuel
Kant setti Piaget fram nýjar hugmyndir um það
hvernig börn (og manneskjur yfirleitt) öðlast
þekkingu: Þekking er ekki eitthvað sem kemur
utan frá heldur eitthvað sem barnið skapar úr
reynslu sinni og í þeim tilgangi að koma reglu
á heiminn þarna úti. Án slíkrar sköpunar yrði
lífið samhengislaust og heimurinn þarna úti
óreiðan ein.
Sú nýja sýn sem hér var boðuð og nefnd
hugsmíðahyggja (constructivism) hreyfði við
mér. Ég fór að sjá nemendur mína í nýju ljósi,
sem þekkingarsmiði frekar en þekkingarþega,
og þetta hafði, með tíð og tíma, áhrif á
starfshætti mína. Samræður urðu til að mynda
áberandi þáttur í kennslunni hjá mér. Ég var
nú ekki lengur að koma efninu til skila heldur
hjálpa nemendum mínum að byggja upp
þekkingu sína. Þegar kennari er farinn að hugsa
á þennan hátt verður samtalið eðlilegur þáttur í
kennslunni: leið kennarans til að fylgjast með
og styðja við þekkingarsköpun nemenda.
En hin nýju fræði rugluðu mig líka í ríminu.
Ég hafði vanist því að hugsa um þekkingu
sem „eitthvað þarna úti“, til dæmis sem texta
í námsbókum, enda var alltaf verið að segja í
kringum mig að hlutverk okkar kennara væri
að koma námsefninu (þekkingunni) til skila.
Nú sögðu hin nýju fræði að þekking væri ekki
„þarna úti“ heldur „þarna inni“, að nemendur
hönnuðu hana sjálfir. Hvernig átti að koma
þessu heim og saman?
Satt best að segja olli þetta mér nokkrum
hugarkvölum og það var ekki fyrr en allmörgum
árum síðar að ég skildi hvernig landið lá. Þá var
ég kominn í doktorsnám og farinn að átta mig
á því að til eru margs konar orðræður um hluti
og að merking orða getur verið breytileg frá
einni orðræðu til annarrar. Ein tegund orðræðu
(sú sem við kennum við heilbrigða skynsemi)
kennir okkur að þekking sé eitthvað þarna
úti. Önnur tegund orðræðu (sú sem flokkast
undir hugsmíðahyggju) segir að þekking sé
hugsmíð.
Í ljósi þeirrar sögu sem hér hefur verið
Að kenna í ljósi fræða og rannsókna