Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2007, Side 53
51
Tímarit um menntarannsóknir, 4. árgangur 2007
Að kenna í ljósi fræða og rannsókna
skólastarfi. Að nokkru leyti hefur hann þegið
þessa talshætti og þessar hugmyndir af því
sem hann hefur upplifað á skólagöngunni
(sbr. Lortie, 1975) en að öðru leyti úr orðræðu
daglegs lífs – og styður þá líklega hvort
við annað, minningarnar og myndirnar annars
vegar og talshættirnir og hugmyndirnar hins
vegar. Vandinn sem við er að glíma hér er
einfaldlega sá að neminn telur sig vita svona
nokkurn veginn hvað það felur í sér að kenna
og hvað það felur í sér að læra. Hann er
kominn með ákveðnar grunnhugmyndir um
þetta og nú er bara að bæta í sarpinn!
Ég hef þráfaldlega orðið var við þetta í
vinnu minni með kennaranemum, ekki síst í
kennsluréttindanáminu í Háskóla Íslands og
gert því fræðileg skil (Hafþór Guðjónsson,
2004; Hafþór Guðjónsson, 2007). Inn í þetta
nám kemur fólk sem stefnir að því að kenna
tilteknar greinar í efri bekkjum grunnskólans
eða í framhaldsskóla, þar á meðal verðandi
raungreinakennarar en hlutverk mitt er einmitt
að leiðbeina þeim. Væntingar þessa fólks
í byrjun eru yfirleitt á þann veg að ég eigi
að segja því hvernig það eigi að kenna sína
grein. Kennslufræði raungreina er í huga þeirra
flestra einhvers konar safn af kennsluaðferðum
sem hafa reynst vel. Þessi afstaða er auðvitað
eðlileg. Þeir, nemendur mínir, hafa vanist því
að hugsa um þekkingu sem eitthvað tilbúið,
eitthvað sem aðrir hafa uppgötvað eða púslað
saman. Þannig er eðlisfræðin og efnafræðin og
líffræðin og allar hinar greinarnar. Pottþéttir
þekkingarpakkar. „Komdu nú með pakkann
þinn,“ segja þeir við mig og eru þegar búnir
að taka fram blað og penna, tilbúnir að glósa
„það sem er vitað“. Þeir verða því svolítið
ruglaðir og óöruggir þegar ég hafna þessari
þöglu beiðni þeirra og bið þá í staðinn að horfa
inn á við og skoða sínar eigin hugmyndir,
grunnhugmyndir sínar um skólastarf – sinn
eigin hugbúnað: hvernig þeir eru innréttaðir,
hvernig menningin hefur kennt þeim að tala og
hugsa um þekkingu, nám og kennslu. Ég geri
þetta vegna þess að markmið mitt er ekki að
rétta þeim það sem aðrir hafa hugsað heldur
að gefa þeim tækifæri til að hugsa.
Líkt og Korthagen og félagar í Hollandi
legg ég áherslu á að nemarnir mínir búi til sín
eigin fræði (með litlu f-i) út frá eigin reynslu
af vettvangi skólans. Hins vegar legg ég mun
meiri áherslu á tungumálið en þeir. Í grein þeirra
sem ég fjalla um hér að framan (Korthagen
og Kessels, 1999) er ekki minnst einu orði
á tungumálið. Skýringin er að mínu mati sú
að þessir höfundar nálgast kennaramenntun
út frá sálfræðilegu sjónarhorni sem gefur
tungumálinu stöðu miðils eða „rásar“: maður
hugsar fyrst og notar svo tungumálið sem
(hlutlaust) miðlunartæki eða rás til að koma
hugsunum sínum á framfæri við aðra (Reddy,
1979). Í kenningasmíð Vygotsky og fylgjenda
hans er tungumálið hins vegar verkfæri (tool)
sem mótar gerðir okkar en gerir okkur líka
kleift að skapa nýjar hugmyndir, til dæmis um
skólastarf. Þetta getum við til dæmis gert með
því að kynna okkur annars konar orðræður
um hluti og fyrirbæri en við höfum vanist.
Nemendur mínir í námskeiðinu Kennslufræði
raungreina vinna á þessum nótum. Jafnframt
því að ígrunda og setja á blað sínar eigin
hugmyndir um skólastarf lesa þeir fræðigreinar
um skólastarf. Lykilatriðið í þessu samhengi
er hvernig þeir nálgast slíkar greinar, að þeir
líti ekki á þær sem einhvers konar „pottþétt
sannindi“ líkt og eðlisfræðina heldur „öðruvísi
orðræður“ sem vert er að gefa gaum og sem
gætu ef til vill nýst þeim (nemendum) í þeirra
eigin starfskenningasmíð. Málið er auðvitað að
rýna í slíkar greinar með gagnrýnu hugarfari: Á
hverju byggir höfundur þegar hann heldur þessu
fram? Eru hugmyndir af þessu tagi líklegar til
að gagnast mér sem kennara eða skólastarfi
almennt? Samræmast þær þeim siðferðilegu
gildum sem ég trúi á? Hér á það ágætlega við
sem Lee Shulman (1987) segir á einum stað, að
eitt mikilvægasta markmið kennaramenntunar
sé að nemendur temji sér að hugsa vel (reason
soundly). Kennaramenntun snýst ekki fyrst og
fremst um sannindi eða kenningar heldur að
hjálpa fólki að þróa hugsun sína og starfshætti
út frá eigin reynslu og í samspili við annað
fólk, þar á meðal fræðimenn og hugsuði, bæði
þá sem gengnir eru og nú eru uppi.